Hleð Viðburðir

Birtingarmyndir ástarinnar eru margvíslegar eins og við munum kynnast á þessum funheitu tónleikum þriggja hæfileikaríkra tónlistarkvenna, þeirra Önnu Jónsdóttur sópran, Þóru Passauer kontraalt og Nínu Margrétar Grímsdóttur píanóleikara. Þær túlka blóðheitar og ástríkar konur sem ýmist bíða raunamæddar eftir svikulum elskhuga eða sitja sjálfar á svikráðum. Sögusviðið eru fornfrægar borgir Evrópu svo sem Vínarborg og Sevilla. Sungnar verða aríur, sönglög og dúettar.
Á meðan gestir njóta fagurra tóna geta þeir gælt við bragðlaukana með kaffiveitingum úr hinu rómaða eldhúsi Hannesarholts. Miði á tónleikana ásamt kaffiveitingum kostar 4.300 kr.

Anna Jónsdóttir, sópran er fædd í Reykjavík. Hún lærði við Nýja Tónlistarskólann hjá Alinu Dubik. Árið 2003 stundaði hún nám við Tónlistarháskólann í Búkarest þar sem aðalkennari hennar var Maria Slatinaru. Hún lauk svo einsöngvaraprófi frá Nýja Tónlistarskólanum í nóvember 2004 undir handleiðslu Alinu Dubik. Anna hélt debut-tónleika í Hafnarborg haustið 2006. Árið 2008 gaf hún út sinn fyrsta hljómdisk, Móðurást. Sumarið 2010 tók Anna þátt í alþjóðlegu tónlistarsamstarfi á vegum Music Art Omi International í Ghent í New York fylki, þar sem hún dvaldi sem gistilistamaður. Sumarið 2012 tók hún þátt í tónlistarhátíðinni SonicExchange í Kassel í Þýskalandi. Síðustu ár hefur Anna tekið virkan þátt í íslensku tónlistarlífi með fjölda einsöngstónleika og þátttöku í stærri verkefnum. Nú í október gefur Anna út geisladiskinn Var, sem innheldur íslensk þjóðlög sungin án undirleiks (að undan-skildum tveimur lögum), tekin upp í lýsistanki á Djúpavík og Akranesvita nú í sumar.

Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1985, LGSM prófi frá Guildhall School of Music and Drama, Meistaraprófi frá City University í London, Professional Studies Diploma frá Mannes College of Music í New York og doktorsprófi í píanóleik frá City University of New York. Nína Margrét hefur komið fram á Íslandi, Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada, Japan og Kína sem einleikari, með hljómsveitum og í kammertónlist. Hún hefur hljóðritað fimm geisladiska fyrir Naxos, BIS, Acte Préalable og Skref. Nína Margrét hefur verið listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar Klassík í hádeginu í Gerðubergi frá upphafi. Nína Margrét er aðjúnkt við tónlistardeild Listaháskóla Íslands og starfar einnig við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hún flytur reglulega fyrirlestra um tónlist og tónlistarrannsóknir hér á landi og erlendis. Nýlega var doktorsritgerð hennar um píanóverk Páls Ísólfssonar gefin út af Lambert Academic Publishing í Þýskalandi.

Þóra H. Passauer, kontra alt er fædd í Reykjavík. Hún lærði við Söngskólann í Reykjavík og útskrifaðist úr FÍH. Þóra hefur sótt einkatíma hjá Jóni Þorsteinssyni, Kristjáni Jóhannssyni og Elsu Waage, auk þess að sækja söngnámskeið, m.a. hjá Sólrúnu Bragadóttur, Jóni Þorsteinssyni og Laura Sarti. Þóra hefur haldið fjölda einsöngstónleika og komið fram sem einsöngvari með kórum og er núna meðlimur Kammerskórs Seltjarnarneskirkju.

Dagskrá:

Þóra:

Wien du stadt meiner Traume R. Sieczyński
Ich lade gern mir Gaste ein úr Leðurblökunni e.J. Strauss
Prés des remparts de Séville úr Carmen e. G. Bizet
Mon coeur s’ouvre à ta voix úr Samson et Dalila e.C.Saint-Saëns

Anna:
Meine Lippen Sie Küssen so heiss úr Giuditta e. F. Lehar
Vilja Lied úr Die lustige Witwe e. F.Lehar
Elle a fui úr Les contes d’Hoffmann e. J.Offenbach
Les Chemins de l´amour F. Poulenc

Dúettar:
Belle nuit (Barcarolle) úr Les contes d’Hoffmann e. J.Offenbach
Duo des fleurs / Sous le dôme épais úr Lakmé e. L. Delibes
Abends wenn ich shlafen gehe úr Hansel und Gretel e.E.Humperdinck
Duetto buffo di due gatti G. Rossini

Upplýsingar

Dagsetn:
02/11/2014
Tími:
15:00 - 17:00
Verð:
ISK4.300

Staðsetning

Hljóðberg