Mánudaginn 6. maí kl. 20.00 í Hljóðbergi, sal Hannesarholts, munu Páll Skúlason, Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, Guðrún Jónsdóttir og Henry Alexander Henrysson flytja stutt erindi og standa fyrir umræðum um tengsl hugsunar og hamingju og varpa fram ýmsum spurningum um efnið. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill á meðan húsrúm leyfir.
Hvað er jákvæð, gagnrýnin hugsun? Í hverju er hamingjan fólgin? Er hamingjan komin undir hugsun okkar? Getum við ranglega talið okkur vera (ó)hamingjusöm? Er hægt að skilja, meta og mæla hamingjuna? Búum við í hamingjusömu samfélagi?
Þetta eru nokkrar þeirra spurninga sem framsögumenn munu leitast við að svara á mánudagskvöldið. Íslendingar hafa löngum skorað hátt í mælingum Efnahags- og framfarastofnunar (OECD) en þá er mælt hversu ánægt fólk af ólíku þjóðerni er með líf sitt og hversu björtum augum það lítur framtíðina. Það er því áhugavert að skoða nánar í hverju þessi hamingja þjóðarinnar er fólgin.
Sem fyrr segir fer dagskráin fram í Hljóðbergi, sal Hannesarholts og er gengið inn frá Skálholtsstíg.