Bygging hússins og íbúar

Það var Jón Magnússon landshöfðingjaritari og síðar forsætisráðherra sem byggði húsið  í lok 19. aldar, líklega árið 1898 (sbr. Pál Líndal (1988). Reykjavík: Sögustaður við Sund. 3. b.: R-Ö bls. 1888. Reykjavík: Örn og Örlygur).  Þar bjó hann ásamt konu sinni Þóru Jónsdóttur listakonu og kjördóttur þeirra til ársins 1912. Húsið, sem er í sveitserstíl, er eitt af fyrstu húsum sem voru flutt hingað tilhöggin frá Noregi og líkast til s.k. norskt „katalógshús“.

Síðar eignaðist húsið Pálmi Pálsson yfirkennari við MR og Sigríður Björnsdóttir kona hans. Sonur þeirra var Páll Pálmason sem bjó í húsinu eftir lát foreldra sinna.  Stephan G. Stephansson kom í húsið í Íslandsheimsókn 1917 meðan Pálmi bjó þar og ku hafa skrifað um það. Halldór Laxness segir líka frá heimsókn sinni til yfirkennara þangað í endurminningabókum.

Menntamálaráðuneyti keypti húsið árið 1987 fyrir Stofnun Sigurðar Nordals. Skrifstofan er á aðalhæðinni en á þeirri efri er íbúð sem erlendir fræðimenn geta fengið afnot af.  Flestar ofangreindar upplýsingar eru fengnar af vef Stofnunar Árna Magnússonar.

Í Árbók hins íslenzka fornleifafélags segir að húsið hafi komið til landsins 1898, en fasteignaskrá tiltekur árið 1899.

Um byggingu hússins í Ágripi íslenskrar húsagerðarsögu fram til 1970 segir:

„Húsið við Þingholtsstræti 29 var flutt tilsniðið til landsins frá Noregi 1898. Húsið er hæð og portbyggt ris á hlöðnum munsturpússuðum kjallara. Á miðri framhlið er miðjukvistur og þakið slútir lengra út yfir hliðar hússins en áður gerðist og sperruendar eru útskornir. Skreytt band gengur umhverfis húsið ofan glugga. Gluggar eru T-laga og inngangur um gafl, veggir eru klæddir strikaðri vatnsklæðningu neðan við bandið en ofan þess er lóðrétt panelklæðning.“

Í greininni Á göngu með Guðjóni úr Helgarpóstinum frá 1988 má lesa eftirfarandi:

„Á næsta horni, horni Þingholtsstrætis og Skálholtsstígs, stendur húsið sem mun hýsa stofnun Sigurðar Nordal, Þingholtsstræti 29. Guðjón segir það hús vera eitt af norsku verðlistahúsunum: „Þessi hús voru pöntuð eftir verðlista frá útlöndum. Viðurinn var merktur og húsin sett saman eftir leiðbeiningunum. …. “ og síðar segir í sömu grein:

„Lengst af bjó sama fjölskyldan á númer 29. Það var Pálmi Pálsson, yfirkennari við Menntaskólann, og síðan sonur hans Páll, sem var ráðuneytisstjóri en er látinn fyrir fáeinum árum. Páll átti enga erfingja og eftir lát hans eignaðist Erfðasjóður húsið. Það var í rauninni synd að húsgögn og allt innbú var selt, hvað í sína áttina. Þetta var ekta aldamótaheimili fíns embættismanns sem þarna stóð óbreytt, geysistórt bókasafn og falleg málverk. Sjálfu húsinu hafði verið mjög lítið breytt. Það hefði verið gaman að setja upp safn hér sem sýndi hvernig heimili embættismanna voru um aldamótin, en menn áttuðu sig ekki á þessu fyrr en of seint. Það hefði ekki verið ónýtt fyrir stofnun Sigurðar Nordal að eignast bókasafnið sem þarna var til. En því miður átti sér stað eitt af þessum slysum sem vilja gerast hér og allt var selt.“


Húsið og íbúar þess í dagblöðum liðinna tíma

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

Víða mátti sjá auglýsingar um herbergi/stofu til leigu í húsinu en einungis er birt ein slík auglýsing sem sýnishorn.

  • 1910: Formiðdagsstúlka óskast í Þingholtsstræti 29 (bæjarfógetahúsið) – (augl.)
  • 1916: Hús til sölu á góðum stað i bænum. Páll Pálmason Þingholtsstræti 29 (augl.)
  • Hérmeð tilkynnist vandamönnum og vinum, að faðir minn, yfirkennari Pálmi Pálsson, lést í Kaupmannahöfn miðvikudaginn 21, þessa mánaðar. Reykjavík 23. júli 1920. Páll Pálmason. (tilkynning)
  • 1921: Det kgl. oktr. Söassurance-Kompagni. Stofnsett  1726. Tekur að  sér alls konar sjóvátryggingar. Aðalumboðsmaður fyrir Ísland Páll Pálmason , hæstaréttarmálaflutningsmaður. Heima kl. 4-5 e. m. – Þingholtsstræti 29. – Sími 754 (augl.)
  • 1929: Gufuskip hentugt til línu- og sildveiða til sölu. Páll Pálmason, Þingholtsstræti 29 (augl.)
  • 1939: 2 samliggjandi herbergi til leigu Þingholtsstræti 29. – Sími 3754 (augl.)
  • 1941: Gardyrkjustorf. Tek að mér skipulagningu og teikningu skrúðgarda . Ennfremur  að þrífa til i görðum og önnur garðyrkjustorf. Fagleg þekking. Bjarni  Fanndal Finnbogason, Þingholtsstræti 29. Simi 3754, frá 10.12 f. h. (augl.)
  • 1941: VIÐTÆKI, 4ra lampa Phillips, 1938, vel  með farið,  og Rheinmetall-ritvél, sem ný, til sölu. Þingholtsstræti 29 kl. 7-8 (augl.)
  • 1945: Tillögur um umferðarmál bæjarins: „Að Bjarnarstígur og Skálholtsstígur verði malbikaðir og bærinn kaupi til niðurrifs þau hús, sem hættuleg geta talist umferðinni á þessari leið, en það eru húsin Bergstaðastræti 23 og Þingholtsstræti 29. Við slikar ráðstafanir myndi umferðin dreifast talsvert u m bæinn og létta á umferðinni um Bankastræti og Austurstræti.“ – Sem betur fór varð þessi tillaga ekki að veruleika… (frétt)
  • 1956: Móðir mín Sigríður Pálsson lézt að heimili okkar, Þingholtsstræti 29, mánudaginn 3. september. Páll Pálmason (tilkynning)
  • 1959: Aldarminning Jóns Magnússonar forsætisráðherra (sem byggði húsið að Þingholtsstræti 29)- (grein)
  • 1985: In memoriam. Páll Pálmason fv. ráðuneytisstjóri  (grein)
  • 1987: Hús keypt fyrir Stofnun Sigurðar Nordal (frétt)
  • 1988: Skal efla rannsóknir á íslenskri menningu að fornu og nýju (frétt)
  • 1988: Hús Nordalsstofnunar er í niðurníðslu. – Rætt við Úlfar Bragason forstöðumann Stofnunar Sigurðar Nordals (grein)
  • 1989: Starfsemi Stofnunar Sigurðar Nordals (grein)
  • 1990: Íslandssagan í húsveggjum. Þingholtsstræti 29 eitt fárra húsa í Sveitserstíl sem varðveist hefur óbreytt hér á landi (grein)
  • 1991: Gömlu húsin oft alheil undir ryðguðu bárujáminu (grein)
  • 1991: Stofnun Sigurðar Nordals fimm ára: Nauðsynlegt að hafa opinn glugga til annarra landa – segir Úlfar Bragason forstöðumaður stofnunarinnar (grein)
  • 2009: Húsin þurfa að hafa hlutverk (grein)