Stelur ofan af öllum fjöllum
úrug hnausþykk grúfuþoka.
Lausir yfir lægstu hjöllum
læðumekkir fölir voka;
niður úr gráum slóða slæðast,
sleikjast niður milli rinda,
kringum börð og brotholt læðast,
búa þar til falska tinda.
Sýnist foldin, fjöllum krýnda,
fáranleg sem umskiptingur.
Hvergi finn ég fegurð týnda,
falsaður allur sjónarhringur.
*
Ó, ég þekki þess kyns mekki.
Þeir eru víða og oft á sveimi.
Þussast jafnvel þings um bekki
þeirra læðupoka streymi.