Þessa vikuna fagna landsmenn bæði afmæli lýðveldisins og 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Í Hannesarholti minnumst við vinanna Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og Hannesar Hafstein, sem voru samstíga í baráttunni fyrir bættum réttindum kvenna. Bríet gaf Hannesi rauðar rósir í þakklætisskyni fyrir hans hlut í þeirri baráttu og þess vegna bjóðum við rauðum rósum að auka á hátíðarbraginn í húsinu.

„Húrra fyrir okkur konum! Og dálítið húrra fyrir Hannesi Hafstein! Mér sem átti upptökin og fékk hann til að flytja það og honum einkum sem gerði það svona vel.“ Hér á Bríet við frumvarpið um rétt kvenna til embætta og námsstyrkja, sem var samþykkt á Alþingi 1911 og staðfest af konungi 1915 um leið og frumvarpið um kosningaréttinn.