Það er gleðilegt að skýra frá því að í tilefni af tónleikum Diddúar og Önnu Guðnýjar „Á vængjum söngsins,“ hefur verið sett upp sýning á portrettmyndum af Diddú í Hljóðbergi, sem listakonan Kristín Þorkelsdóttir hefur gert nýlega. Kristín á að baki langan og farsælan feril sem listakona og grafískur hönnuður og á meðal annars heiðurinn af íslensku peningaseðlunum. Fyrir fjórum árum síðan fékk Kristín blóðtappa í heila, en hefur með aðdáunarverði þrautsegju og bjartsýni náð kröftum á ný og heldur áfram að skapa.

Kristín hefur þetta að segja um myndirnar:

„Fyrstu myndirnar af Diddú gerði ég fyrir rúmlega 30 árum, þegar hún var við söngnám í London, hún er tengdadóttir systur minnar og ég hef fylgst með Diddú lengi. Þegar Diddú varð fimmtug ákvað ég að gera portrett af henni, ég safnaði heimildum, fylgdi henna eftir um skeið, teiknaði hana og tók af henni ljósmyndir á æfingum og aflaði mér grunnefnis til að byggja á. Hugsaði um hvernig myndin af Diddú yrði sönn. Gerði rissmyndir í skissubækur og tíminn leið. Aldrei gat ég fengið mig til að byrja. Ég held að fyrirætanir mínar um frábæra mynd hafi staðið í vegi fyrir mér.

Tíminn leið og Diddú var að verða sextug! Ég gat ekki byrjað á myndinni; lenti í algerri “ritstíflu”.Ragna Fróða, tengdadóttir mín, sagði mér af bandarískri konu sem hafði sérhæft sig í að hjálpa listafólki til að ryðja sköpunastíflum úr vegi; Hún þróaði árangursríkt námskeið og endaði á að gefa út metsölubók sem kenndi fólki að ná utan um eðlilegt sköpunarflæði aftur. Ég pantaði bókina og hófst handa í desember 2014 – fylgdi leiðsögninni og hélt svo áfram strax í janúar. Það brá svo við í febrúar að stíflan brast;  allt í einu varð ég tilbúin að byrja, ég ákvað að skipta um efni og hófst handa í pastel í fjörugum andstæðulitum, fór að leika mér. Stillti mér upp við trönurnar og vann í 2 tíma, (hef ekki úthald í lengri stöður núorðið) og ákvað að halda áfram daginn eftir. Það brá svo við að ég hlakkaði til að vakna daginn eftir og halda áfram með myndina. Vinnugleðin tók völdin og ég hætti ekki fyrr en ég var búin með 4 portrett í lok mars 2015.“