Dramalandið nefnist málverkasýning Arngunnar Ýrar Gylfadóttur, sem prýðir veggi á tveimur hæðum Hannesarholts til 19.ágúst. Sýningin samanstendur af 29 verkum, olíumálverkum og myndum unnum í einþrykk. Arngunnur Ýr er ein af okkar þekktari listmálurum og hafa verk hennar verið keypt bæði til opinberra aðila og einkaaðila víða um heim.
Arngunnur stundaði nám í Myndlista-og handíðaskóla Íslands og síðar lá leið hennar til Kaliforníu þar sem hún lauk BA-gráðu í málaralist frá San Fransisco Art Institute og meistargráðu í málaralist frá Mills háskólanum í Oakland. Einnig stundaði hún nám við Gerrit Rietveld Akademíuna í Amsterdam í Hollandi.
Arngunnur hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar, m.a.Pollock-Krasner styrk árið 2005 og styrk úr sjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur. Frekari upplýsingar má finna á vefsíðu Arngunnar: www.anrgunnur-yr.com