Verið velkomin á fría dagskrá í Hannesarholti á menningarnótt!

KL.14.00 Grímur
KL.15.00 Salóme Katrín
KL.16.00 Teitur Magnússon & Æðisgengið
KL.17.00 Valgeir Guðjónsson & Vigdís Vala Valgeirsdóttir
KL.18.00 Svavar Knutur & Kristjana Stefans
KL. 20.00 Pale Moon
KL. 21.00 Quest

Grímur gaf út sína fyrstu plötu, „B.V.O.Y“, í febrúar 2019. Platan hefur fengið mikla athygli bæði hérlendis og erlendis þar sem Grímur hefur búið undanfarin ár. Tónlistin einkennist af einlægum textum og grípandi laglínum sem heldur hlustandanum við efnið. Fyrr á þessu ári hélt Grímur uppselda útgáfutónleika í Hörpu og spilaði nú seinast í hinum víðfræga Frystiklefa á Rifi.

Salóme Katrín sá heiminn fyrst eitt napurt haust um miðbik tíunda áratugar síðustu aldar, í kjölfar þess að henni var þrýst í hann, í stofu, á stóru gráu sjúkrahúsi í litlu útgerðarplássi á norðvesturhorni Íslands.
Og Hún sá að hann var góður, og Hún brosti til hans. Og það var kvöld, og það var morgunn.
Hún hefur lagt sig fram um að fremja tónlist honum til heiðurs ætíð síðan.
Og nú megið þér hlusta.

Teitur Magnússon Hlýr, tímalaus en jafnframt hrár – „það er enginn asi á Teiti“. Svo lýsti gagnrýnandinn Ingimar Bjarnason tónlistinni á síðustu plötu Teits Magnússonar, Orna, sem kom út á síðasta ári við mikinn fögnuð tónlistarunnenda. „Einhver fegursta hljóðmynd sem lengi hefur komið út á Íslandi“, sagði Ragnheiður Eiríksdóttir í Morgunblaðinu. Með Orna fylgdi Teitur eftir frumburði sínum sem sólótónlistarmaður, plötunni 27, sem þótt ekki síður dásemd, en Teitur hafði áður getið sér gott orð sem söngvari og gítarleikari reggísveitarinnar Ojba Rasta.
Teitur mætir á Hannesarholt og hefur með sér Æðisgengið – og þar er vægt til orða tekið valinn maður í hverju í rúmi.

Sérsmíðuð tónlist og textar Valgeirs og Vigdísar Völu sem leika og syngja ásamt bakhjarlinum og verkfræðingnum Magnúsi Oddssyni.

Svavar Knutur og Kristjana Stefans hafa undanfarin ár vakið verðskuldaða athygli fyrir stórskemmtileg dúettakvöld. Þar ríkir bæði gleði og angurværð ásamt dassi af glettni og bera þau vinirnir á borð fjölbreytta dagskrá dúetta, sem rúmar allt frá Abba til Dolly Parton með viðkomu hjá Nick Cave og Páli Ísólfssyni, auk frumsaminna laga og hinna ýmsu gleði- og tregabomba. Í ár munu lög um sjóinn ráða ríkjum og söngvar um samskipti manns og hafs eiga sinn stað, auk hefðbundinna ljúfra ballaða um ástina og lífið.
Kristjana og Svavar hafa síðan 2008 haft unun af því að syngja saman dúetta og komið fram víða um land við gríðargóðar undirtektir. Þau gáfu út dúettaplötuna Glæður árið 2011 og hefur hún hlotið bráðgóðar viðtökur.

Pale Moon Viðeigandi kynningartexti fyrir hljómsveitina Pale Moon yrði, ef til vill, svohljóðandi (textinn byggist á sannsögulegum atburðum): „Íslenskur maður kynnist rússneskri konu á Spáni, saman stofna þau hljómsveit sem heitir í höfuðið á plötu eftir franska hljómsveit, og halda svo til Mexíkó í tónleikaferðalag“—eða eitthvað í þá áttina … hvað sem í meðallagi ágætum kynningartextum líður þá gaf íslensk-rússneska tvíeykið Pale Moon út EP plötuna „Dust of Days“ 15. apríl. Platan var hljóðrituð í gömlum sveitabæ á suðurlandi og er, að hluta til, innblásin af plötunni „Exile on Main St.“ eftir the Rolling Stones.

Quest er 80’s nostalgía í mjög þéttu formi og mætir með stórt D í dansinn!