Afmælishátíð vegna 7 ára afmælis Hannesarholts verður haldin laugardaginn 8.febrúar kl.16 og eru vinir og velunnarar Hannesarholts velkomnir. Við það tilefni verður frumflutt nýtt lag eftir Valgeir Guðjónsson.
Lagið er samið við hið þekkta ljóð Hannesar Hafsteins um skáldið Jónas Hallgrímsson „Hraun í Öxnadal“. Lög Valgeirs einkennast flest af einfaldleika og eru fyrir vikið söngvæn.
„Hraun í Öxnadal“ getur talist einstakt fyrir margra hluta sakir, ekki síst þar sem þar mætast tvö stórskáld þar sem annað þeirra dregur upp ljóðræna og rómantíska mynd af æskustöðvum hins í fögrum og myndrænum kveðskap.
Valgeir vildi freista þess að gefa þessu einstaka ljóði söngvænni tónlistarbúning en þjóðin þekkir, báðum skáldunum til heiðurs og í samstarfi við Hollvinafélag Hannesarholts.
Á undanförnum árum hafa lög Valgeirs ratað í auknu mæli in á vettvang kóra landsins og nokkur þeirra fest sig í sessi í flutningi kirkjukóra. „Kveiktu á ljósi“ er eitt af nýju lögunum sem flutt er af kórum landsins um víðan völl en Biskupsstofa styrkti útsetningu og hljóðupptöku þess. Auk laga sem landinn þekkir hefur hann á undanförnum árum samið á þriðja tug laga og texta á ensku um landnámstímann. Verkefnið heitir Sagamusica en þar fjallar Valgeir um erkitýpur Íslendingasagna svo sem hetjuna, skáldið, þrælana, sjóferðir vegna landafunda og svo má lengi telja. Sagamusica hefur verið flutt tvö síðastliðin sumur í Hannesarholti fyrir erlenda gesti
Valgeir getur talist í hópi afkastamestu laga- og textasmiðum landsins en hann hefur verið virkt tón- og textaskáld síðan 1975, með á áttunda hundrað verka skráð hjá STEFi.