Hleð Viðburðir

Herdís Anna Jónasdóttir sópran og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari flytja tónlist úr ýmsum áttum, meðal annars eftir Debussy, Kurt Weill, Gershwin og afmælisbarn ársins Leonard Bernstein á tónleikum í Hannesarholti, sem eru partur af dagskrá Óperudaga í Reykjavík.

HERDÍS ANNA
Herdís Anna Jónasdóttir lærði á fiðlu, píanó og söng frá unga aldri við Tónlistarskólann á Ísafirði. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði lagði hún stund á framhaldsnám við Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Elísabetar Erlingsdóttur. Þaðan útskrifaðist hún með Bachelor gráðu í söng og hélt til Berlínar. Við Hanns-Eisler tónlistarháskólann lærði hún hjá Prof. Brendu Mitchell og Önnu Samuil, en sótti einnig tíma hjá Juliu Varady og Wolfram Rieger. Hún kláraði Konzertexamen árið 2012 með ágætiseinkunn og var þá ráðin að óperustúdíóinu við Óperuna í Zürich. Þar tók hún þátt í ótal sýningum og masterklössum, hjá Michelle Breedt, Brigitte Fassbaender, Francisco Araiza, Fabio Luisi, Ivor Bolton, Andreas Homoki, Dmitri Tcherniakow o.fl.

Herdís hefur tekið þátt í fjölmörgum óperuuppfærslum í Þýskalandi, Íslandi og Sviss. Meðal helstu hlutverka eru Adina (Ástardrykkurinn), Adele (Leðurblakan), Zerlina (Don Giovanni), Drottningin frá Schemacha (Gullni haninn), Maria (West Side Story), Eliza (My Fair Lady), Nannetta (Falstaff), Oscar (Grímudansleikur) og Musetta (La Bohème).

Herdís hefur einnig margsinnis komið fram á tónleikum, s.s. með Kammersveit Reykjavíkur, á Carl-Orff tónlistarhátíðinni, með Saarlensku ríkishljómsveitinni, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveitinni í Canberra, Ástralíu.

Herdís var valin söngkona ársins í Saarbrücken árið 2016. Þá hefur hún tvívegis verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna (Söngkona ársins 2012 og Bjartasta vonin 2011), komist í úrslit í Riccardo Zandonai keppninni 2012 og hlotið ýmsa styrki. Árin 2014-2018 var hún fastráðin sem einsöngvari við Ríkisóperuna í Saarbrücken, Þýskalandi.

EVA ÞYRI
Að loknum prófum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík stundaði Eva Þyri Hilmarsdóttir nám við Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum, Danmörku, og lauk þaðan einleikaraprófi.
Að því loknu nam hún við The Royal Academy of Music í London, en þaðan útskrifaðist hún með hæstu einkunn, hlaut heiðursnafnbótina DipRAM og The Christian Carpenter Piano Prize fyrir framúrskarandi lokatónleika.
Helstu kennarar hennar voru Þorsteinn Gauti Sigurðsson, Halldór Haraldsson, John Damgård og Michael Dussek.

Auk fjölda einleikstónleika hefur Eva Þyri komið fram sem einleikari með hljómsveit og tekið þátt í frumflutningi íslenskra og erlendra verka m.a. á hátíðunum Myrkum Músíkdögum, Ung Nordisk Musik, Young Euro Classic Festival í Berlín og Young Composers Symposium í London.

Undanfarin ár hefur hún einnig lagt mikla áherslu á flutning ljóðasöngs og kammertónlistar og kom m.a. fram á rúmlega hundrað tónleikum tileinkuðum íslenskum sönglögum í Hörpu, í tónleikaseríunni Pearls of Icelandic Song.

Eva Þyri tók þátt í uppsetningu Íslensku óperunnar á Mannsröddinni eftir Poulenc 2017 og í lok árs 2018 kemur út geisladiskur með söngverkum Jórunnar Viðar sem hún hefur unnið í samstarfi við Erlu Dóru Vogler í tilefni 100 ára afmælis Jórunnar.

Upplýsingar

Dagsetn:
03/11/2018
Tími:
13:00 - 14:00
Viðburður Category:

Staðsetning

Grundarstígur 10
Reykjavík, 101 Iceland
+ Google Map
Phone
5111904