Morgunstund með Hermanni Stefánssyni
22/04/2023 @ 11:00 - 12:00
Hvað ef ráðherra Íslands hefði verið heittrúaður spíritisti, trúað á allskyns samskipti við framliðna sem í augum flestra nútímamanna orka fráleit og viljað haga stjórnmálastefnu sinni í samræmi við það? Morgunstund með Hermanni Stefánssyni þann 22. apríl er ekki ótengd Hannesarholti því maðurinn sem var ráðherra frá 1909 til 1912, er sögupersóna í skáldsögu Hermanns, Millibilsmaður. Björn Jónsson tók við af Hannesi Hafstein og það var Hannes Hafstein sem tók við af honum aftur. Um skáldsögu sína Millibilsmann og um tengsl stjórnmála og spíritisma mun Hermann ræða á morgunstundinni, vonandi með þátttöku áhorfenda. Hér er á ferð efni sem lítið hefur verið fjallað um, en langafi Hermanns, Guðmundur Hannesson læknir, gerði ítarlegar vísindarannsóknir á hinum víðfræga miðli Indriða Indriðasyni og dró ekki dul á vantrú sína. Hermann les upp úr skáldsögu sinni með aðstoð Ragnheiðar Ólafsdóttur, sem kveður að gömlum íslenskum hætti það í verkinu sem er í bundnu máli, sem er einkum það sem rennur upp úr útigangskonunni Konkordíu, sem á sér enga stoð í raunveruleikanum, en þó kannski nokkra.
Verið öll velkomin á morgunstund um spíritisma og stjórnmál í Hannesarholti laugardaginn 22.apríl kl.11, aðgangur ókeypis. Sáralítið er eftir af bókinni á lager og vel má vera að festa megi kaup á skáldsögunni Millibilsmaður á staðnum, en hún er óðum og hratt að verða fágæti.
Veitingastaðurinn opnar kl.11.30 og hádegisverður er framreiddur.