Myndlistarsýning KVIKA / MAGMA
24. nóvember @ 14:00 - 16:00
Steinunn Bergsteinsdóttir opnar sýningu sína Kvika / Magma í Hannesarholti laugardaginn 23.nóvember kl.14-16.
Uppistaðan í sýningunni eru krossaumsverk í stramma sem hún saumar beint án þess að teikna fyrst sem leiðir hana í alls konar fantasíur og verkin verða eitt allsherjar ævintýri. “Nýjustu verkin urðu til við að endurvinna gömul, hálfsaumuð krosssaumsverk. Að sjá skæra litina fylla upp það gamla fann ég sterk tengsl við það sem var að gerast í Grindavík þar sem hraunkvika og eldur ruddist upp og braut sér leið inn í hús og gróin hverfi.” Þaðan er sprottið nafnið á sýningunni sem er sölusýning og stendur til 11.desember.
Steinunn Bergsteinsdóttir fæddist í Reykjavík 1949. Að loknu námi í Kennaraskóla Íslands hóf hún nám við Myndlista-og handíðaskólann og útskrifaðist 1973 úr textíldeild sem þá var ný braut við skólann. Hún hefur unnið jöfnum höndum við list og hönnun síðan. Sem textílhönnuður hjá ullarfyrirtækinu Hildu hf. og mörgum minni fyrirtækjum. Rak einnig eigið ullarfyrirtæki um tíma. Var og ein af þeim sem stofnuðu Textílfélagið og sölugalleríin Sólon Íslandus og Gallerí Langbrók.
Frá árinu 1999 hefur Steinunn einbeitt sér að gerð olíumálverka og mósaikverka og nú nýverið útsaumsverka. Í þeim notar hún gjarnan gamlan stramma og allskonar garn. Endurvinnsla og nýting eru henni ofarlega í huga. Hér sýnir hún bæði krosssaumsmyndir og mósaikmyndir unnar úr brotnum skrautmunum og leirtaui. Krosssaumsmyndirnar saumar hún beint í strammann í frjálsu flæði án teikninga og myndirnar fara sínar eigin leiðir, breytast oft frá þeirri hugmynd sem lagt er upp með, öðlast sitt eigið líf í allskonar fantasíum og ævintýrum.
Það hentar Steinunni vel að vinna hægt og sígandi. Mósaik, krosssaumur, prjón og vefnaður eiga það sameiginlegt að vera afar seinlegar aðferðir. „Ef ég fæ að vinna með liti skiptir mig ekki máli hvort það eru olíulitir,taulitir,garn, mósaik eða perlur, Ég verð bara að fá að skapa.” -Steinunn Bergsteinsdóttir
Sýningin er opin alla daga nema sunnudaga og mánudaga kl.11.30-16, á opnunartíma Hannesarholts.