Byggingár og nokkrir íbúar

Húsið við Þingholtsstræti 26 er byggt árið 1903 skv. Húsafriðunarnefnd (Ársskýrsla 2006) en fasteignaskrá nefnir árið 1904.

Það er ekki miklar upplýsingar að hafa um þetta hús á rafrænu formi en ljóst að margir íbúar áttu þarna heimili sitt og margir voru þar leigjendur um tíma. Nokkru minna var um atvinnustarfsemi í húsinu en í mörgum öðrum við Þingholtsstræti ef marka má auglýsingar gamalla dagblaða.

Til gamans má geta þess að skáldið Þorsteinn Erlingsson bjó í húsinu um tíma frá 1904, hugsanlega til ársins 1911 þegar hann og Guðrún kona hans eignuðust húsið við Þingholtsstræti 33.

Meðal annarra íbúa hússins var t.d. Ólafur Jónsson bæjarfógetaritari sem lést árið 1910, Kristín Meinholt sem bauð  höfuð- og andlitsböð, Jón Ásbjörnsson yfirdómslögmaður, Einar Sigurðsson verkamaður (lést 1945)  og Steingrímur Guðmundsson listmálari (lést 1996) Eru þá aðeins örfáir nefndir  af mörgum. Bjarni Konráðsson læknir hafði einnig læknastofu sína í húsinu um skeið.

Heimildir sýna að húsið fékk styrk frá húsafriðunarnefnd a.m.k. árin 2004 og 2006.


Húsið í dagblöðum liðinna tíma

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

  • 1904: Meðala-lýsi gufubrætt fæst í Þingholtsstræti 26. Flaskan 1,50 (augl.)
  • 1904: Þorsteinn Erlingsson er fluttur í Þingholtsstræti 26 (augl.)
  • 1904: Ensku, þýzku og dönsku kennir Þorsteinn Erlingsson, Þingholtsstræti 26 (augl.)  – [Þorsteinn og Guðrún kona hans eignuðust síðar árið 1911 húsið að Þingholtsstræti 33]
  • 1904: HERBERGI til leigu fyrir einhleypan mann eða konu i Þingholtsstræti 26 (augl.)
  • 1905: Herbergi til leigu í Þingholtsstræti 26, hjá Þorst. Erlingssyni (augl.)
  • 1905: Til leigu 14. mai i Þingholtsstræti 26 heil íbúð, en á Laufásveg 6, Laugaveg 27, og Skólavörðustig 33 sérstök herbergi hjá Lárusi Benediktssyni Lækjargötu 12 (augl.)
  • 1907: Afgreiðsla »Gjallanda« er á Hverfisgötu 5, og í Þingholtsstræti 26, á þessum stöðum geta og drengir og stúlkur fengið »Gjallanda« til að selja um bæinn. Góð sölulaun (augl.)
  • 1907: …Valurinn er eitt af stærstu blöðum landsins, flytur ítarlegar greinar um landsmál, og er áreiðanlegt fréttablað. … Kaupmenn í Reykjavík, sem vilja auglýsa í Valnum, sendi auglýsingar sínar annaðhvort í Gutenberg eða til ritstjóra í Þingholtsstræti 26 (augl.)
  • 1907: Tvö loftherbergi til leigu 14. n. m. í Þingholtsstræti 26 (augl.)
  • 1908: Fæði fæst keypt í Þingholtsstræti 26. Þórunn Nielsen (augl.)
  • 1908: Brauðsala er byrjuð í Þingholtsstræti 26 (augl.)
  • 1909:  Tímakennsla í íslenzku, dÖnsku, reikningi, ensku, náttúrufræði (dýrafr., efnafr. og eðlisfr.) o. fl. fæst í Þingholtsstræti 26 (niðri). Mjög ódýrt kennslukaup. Grímúlfur Ólafsson (augl.)
  • 1912: Saum á drengja og karlmannsfatnaði tekur undirrituð að sjer. Þingholtsstræti 26. uppi Jóhanna Blöndal (augl.)
  • 1912: Námspiltur reglusamur getur fengið húsnæði með öðrum í Þingholtsstræti 26 (augl.)
  • 1913: Kristín Meinholt er flutt í Þingholtsstræti 26 (tilkynning)
  • 1913: Höfuð- og andllitstböð hvergi betri nje odýrari en hjá mjer. Stello-cream, þetta marg eftirspurða, sem mýkir og styrkir húðina, og allir ættu þvi að nota, fæst aðeins hjá mjer. Kristín Meinholt, Þingholtsstræti 26 (augl.)
  • 1913: Kaffihúsið sem var í Strandgötu 52, Hafnarfirði, er flutt til Reykjavíkur. Þingholtsstræti 26 . Selur heitann mat allan daginn, kaffi, öl og límonaði. — Einnig fæði um lengri og skemri tíma (augl.) http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1111332
  • 1913: 2—3 herbergi og eldhús til leigu frá 14. maí. Uppl. Björn Blöndal, Þingholtsstræti 26 (augl.)
  • 1917: Fermd stúlka innan 17 ára óskast til snúninga. Jörundur Brynjólfsson Þingholtsstræti 26 (augl.)
  • 1918: Jón Ásbjörnsson yfirdómslögmaður er fluttur í Þingholtsstræti 26 (augl.)
  • 1920: Rúmstæði fást keypt í Þingholtsstræti 26, uppi (augl.)
  • 1927: 2 stúlkur geta fengið fæði í Þingholtsstræti 26, niðri (augl.)
  • 1927: Sjötugur er í dag Einar Sigurðsson verkamaður, Þingholtsstræti 26. Hefir hann lengi verið félagi „Dagsbrúnar“ og áhugasamur Alþýðuflokksmaður. Hann hefir nýlega orðið fyrir þeirri sorg að missa konuna sína, eins og áður hefir verið sagt frá hér i blaðinu (tilkynning)
  • 1929: Fæði sel ég undirrituð til 1. október í Þingholtsstræti 26 og eftir það á Klapparstíg 10. Málfríður Jónsdóttir (augl.)
  • 1929: Fæði með sanngjörnu verði fæst í Þingholtsstræti 26, niðri. Þuríður Jónsdóttir (augl.)
  • 1936: Til leigu 14. maí heil hæð í húsi 4—5 herbergi og eldhús. Uppl. í Þingholtsstræti 26, eftir 8 að kveldi (augl.)
  • 1938: Bátur til sölu, ca. 19 feta Iangur. Uppl. Þingholtsstræti 26, kl. 6—8 í kvöld (augl.)
  • 1946: Dúllur, hvítar og mislitar prjónaðar og smádúkar til solu. Einnig prjónað eftir pöntun. Uppl. Þingholtsstræti 26, uppi. Guðrun Sigurðardóttir (augl.)
  • 1947: Orðsending frá Hvöt, fjelagi Sjálfstæðiskvenna. Þær fjelags konur og aðrar sjálfstæðiskonur, sem eiga eftir að gefa basar fjelagsins, sem verður miðviku daginn 26. nóv., eru vinsamlega beðnar að senda gjafirnar til Maríu Maack, Þingholtsstræti 26, í síðasta lagi  (augl.)
  • 1950: Góð kona eða stúlka, óskast til að annast veika konu. Upplýsingar i Þingholtsstræti 26, uppi, eftir kl. 2 í dag (augl.)
  • 1953: Opna lækningastofu í dag 7. október 1953, i Þingholtsstræti 26. Viðtalstími kl. 5 1/2 – 6. Sérgrein: lækningarannsóknir. Simar 82765 og 3575. Bjarni Konráðsson læknir (augl.)
  • 1954: Veitið athygli: Konan, sem fékk lánaðan svefnpoka hjá mér síðastliðinn vetur, er vinsamlegast beðin að skila honum sem fyrst. Valgerður Tómasdóttir, Þingholtsstræti 26 (augl.)
  • 1957: Stórbruni virtist yfirvofandi í Þingholtunum er „Hússtjórn“ brann. „Eldur kviknaði nokkrum sinnum í vindskeið Þingholtsstrætis 26.“ (augl.)