Lífið er ljúft þessa dagana og ótal margt á seyði eins og svo oft áður. Bríetargangan s.l laugardag tókst með eindæmum vel. Frábær mæting og uppákoman öll ákaflega fróðleg og skemmtileg – bæði gangan sjálf undir styrkri stjórn Auðar Styrkársdóttur og einstaklega fróðleg erindi um þessa mætu konu, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur sem bjó um skeið á Þingholtsstræti 18.
Nú nálgast páskahátíðin og þá snúast hjólin heldur hægar hér eins og annars staðar. Borðstofan verður þó opin á skírdag og annan í páskum en að öðru leyti verður lokað.
Endilega fylgist svo með viðburðaskránni okkar því margir skemmtilegir viðburðir eru fyrirhugaðir nú á vordögum.