Leshringur – Stúlka með maga
17/05/2014 @ 14:00 - 15:00
| ISK1000Lengi hefur verið áhugi fyrir því í Hannesarholti að efna til leshrings, þar sem fólk kemur saman til að ræða bók sem það hefur lesið. Nú stefnir í fyrsta leshringinn, og varð bókin Stúlka með maga eftir Þórunni Erlu-og Valdimarsdóttur fyrir valinu. Bókin kom út hjá Forlaginu á síðasta ári og hefur fengið verðskuldaða athygli. Höfundurinn, Þórunn Erlu-og Valdimarsdóttir og ritstjóri verksins, Guðrún Sigfúsdóttir verða báðar þátttakendur í leshringnum. Allir eru velkomnir – bæði þeir sem þegar hafa lesið bókina og einnig þeir sem eiga það eftir.
Bókin hlaut Fjöruverðlaunin 2014 í flokki fagurbókmennta og hér má sjá rökstuðning dómnefndar:
Í þessari skáldættarsögu leiðir Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir lesendur aftur í tímann og segir af ættingjum sínum og fólki sem þeim tengist. Hún skrifar í orðastað móður sinnar, sem sér lengra en nef hennar nær, bæði fram í tímann og aftur í aldir. Rödd sögukonunnar er sterk og frumleg, eins og sagan sjálf, hæðin þegar það á við, en líka elsku- og huggunarrík. Það er mikill stráksskapur í textanum og stíllinn er fagur og töfrum slunginn. Höfundurinn fjallar um ætt sína af skilningi og ást þess sem veit að hjörtum mannanna svipar saman. Enginn fer í gegnum lífið án þess að upplifa sitthvað fallegt og gott – og, eins og segir í Stúlku með maga: „Enginn sleppur við angist og sviða“. Þórunn sýnir að þótt hverri manneskju sé ef til vill afmörkuð stund, þá geta pappírar úr járnskápum afkomendanna reynst afar notadrjúgir okkur hinum.