Um þessar mundir eru 100 ár liðin frá fæðingu Skúla Halldórssonar og af því tilefni verða haldnir um hann minningartónleikar í Hannesarholti.

Skúli fæddist á Flateyri við Önundarfjörð 28. apríl 1914. Hann var sonur Halldórs Stefánssonar læknis og Unnar Skúladóttur Thoroddsen. Skúli nam ungur píanóleik hjá móður sinni og seinna hjá ýmsum kennurum og lauk lokaprófi í tónsmíðum og píanóleik frá Tónlistarskóla Íslands. Hann starfaði hjá Strætisvögnum Reykjavíkur frá 1934-1985, lengst af sem skrifstofustjóri. Eftir hann liggja á annað hundrað verka fyrir einsöngvara, kóra, píanó og hljómsveit. Skúli lést hinn 23. júlí 2004.

Á tónleikunum munu Ágúst Ólafsson baritón, Eva Þyrí Hilmarsdóttir píanóleikari og Áshildur Haraldsdóttir þverflautuleikari flytja verk eftir Skúla.

Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir en fólk er þó beðið að tilkynna um komu sína með því að senda tölvupóst á netfangið skulihalldorsson100@gmail.com