Munir úr Hönnunarsafni Íslands í Norræna húsinu og Hannesarholti í júní
Í tilefni af komu Viktoríu krónprinsessu Svíþjóðar og eiginmanns hennar Daníels prins til Íslands dagana 18. og 19. júní næstkomandi verða valdir munir úr safneign Hönnunarsafn Íslands til sýnis frá 17. – 22. júní.
Í Norræna húsinu og í Hannesarholti verða sýndir nokkrir munir úr Sænsku glergjöfinni sem Karl Gústaf Svíakonungur afhenti Hönnunarsafni Íslands til varðveislu fyrir tíu árum, þegar hann kom hingað til lands í fylgd konu sinnar, Sylvíu drottningar og dóttur þeirra, Viktoríu krónprinsessu. Þessi verk mynda dýrmætan stofn í safneign safnsins. Þarna er um að ræða glæsilegt úrval sænskrar glerlistar eftir samtímalistamenn, munirnir eru gefnir af örlæti þeirra til Íslendinga.
Auk þess verða til sýnis í Norræna húsinu húsgögn úr safneign safnsins eftir íslenska hönnuði sem eru framleidd fyrir alþjóðamarkað af sænskum framleiðendum. Svíþjóð hefur á síðustu árum verið sú erlenda þjóð sem hefur hvað best stutt við íslenska hönnun með framleiðslu og gefst hér tækifæri til að sýna verk nokkurra af okkar þekktustu hönnuðum í dag.
Hönnuðurnir eru: Sigurður Gústafsson – Källemo, Sigríður Heimisdóttir – IKEA, Katrína Ólína Pétursdóttir (með Michael Young) – Swedese og Chuck Mack – Design House Stockholm.
Nánari upplýsingar: harpa@honnunarsafn.is