Hleð Viðburðir

Davíðsljóð í Hannesarholti

Viðburðaröð þar sem Valgerður H. Bjarnadóttir leiðir gesti í ferð um ljóð og líf Davíðs

“Skenktu á skál mína á ný” – Ítalíuför Davíðs

Ítalíuljóðin eru með þekktustu og vinsælustu ljóðum Davíðs. Hver þekkir ekki Katarínu og hefur þar með heyrt af Capri, Bláa hellinum og dansinum tarantellu? Tína Rondóni hefur líka heillað okkur mörg. Davíð segist í ljóðinu elska bæði hana og hennar umbríska vín.

“Ég elska þig, Tína Rondóní.

 Ég elska þitt umbríska vín.

Skenktu á skál mína á ný.

Skálin er þín.”

En Davíð kynntist fleiri hliðum lífsins en ástinni, dansinum og drykknum á Ítalíu. Ljóð eins og Portkona og Betlarinn, Konurnar þrjár og Einmana bróðir fjalla um myrkari hliðar mannlífsins og snerta djúpt.

Ferð hans til Ítalíu, veturinn 1920 til 21, hafði mikil og varanleg áhrif á skáldið. Ferðin lifir í ljóðunum, en einnig í frásögnum úr ferðinni, ekki síst endurminningum Ríkarðs Jónssonar, myndhöggvara. Hann var í för með Davíð og skrifaði ferðasöguna í bókina Skáldið frá Fagraskógi – Endurminningar samferðamanna, sem kom út árið 1965.

Í þessari dagskrá rifjar Valgerður upp nokkur sögubrot frá Ítalíu, deilir hugleiðingum um hvaða áhrif ferðin hafði á Davíð og les ljóðin.

Valgerður H. Bjarnadóttir ólst upp með ljóðum og öðrum verkum Davíðs, eins og þúsundir annarra Íslendinga. Hún las þau, lærði og tengdist sumum þeirra sterkum böndum. S.l. sumar gegndi hún hlutverki húsfreyju í Davíðshúsi og sökkti sér þá á ný inn í þennan heim ástar, sögu, trúar, ævintýra og þjáningar, sem fáir hafa náð að mála eins sterkum litum og Davíð. Vikulega var hún þar með dagskrá um ljóðin og líf Davíðs út frá ólíkum sjónarhornum og nú býður Hannesarholt upp á dagskrá sunnan heiða. Valgerður er félagsráðgjafi með MA í trúarheimspeki og menningarsögu.