Hannesarholt fagnar þriggja ára starfsafmæli um þessar mundir. Þann 8. febrúar 2013 var húsið opnað almenningi og sjálfeignarstofnunin Hannesarholt tók formlega til starfa, hins vegar var veitingaleyfið ekki komið í hús fyrr en fimm dögum seinna og því var tekið á móti fyrsta greiðandi gestinum þann 13. febrúar 2013. Við fögnum þessu að sjálfsögðu og munum í tilefni afmælisins bjóða öllum sem koma í Hannesarholt laugardaginn 13. febrúar uppá sneið af afmælisköku.

Þeir sem leggja leið sína til okkar um helgina geta skoðað tvær ólíkar sýningar sem við hýsum þessa dagana. Í veitingastofunum sýnir Anna Kristín Þorsteinsdóttir klippimyndir undir yfirskriftinn Escape Landscape og á risloftinu má skoða bókverkasýninguna Undir súðinni þar sem listahópurinn ARKIR sýnir ný og eldri bókverk sem sumhver er unnin sérstaklega fyrir sýninguna í Hannesarholti og vísa m.a. í ljóð Hannesar Hafstein.

Á sunnudaginn verður samsöngur í Hljóðbergi kl. 15.00, að þessu sinni mun Sigríður Thorlacius leiða sönginn og Hjörtur Ingvi Jóhannson leikur undir á flygilinn. Textar birtast á skjá til upprifjunar og allir syngja með. Aðgangseyrir er 1000 kr. og börn fá frítt inn í fylgd með fullorðnum. Við hvetjum áhugasama til að tryggja sér miða í forsölu á midi.is

Veitingastofurnar eru venju samkvæmt opnar frá 11-17 um helgina, hægt er að gæða sér á brunch frá kl. 11-14.30 og ljúffengu kaffi og heimabökuðum dásemdum allan daginn.