Bókmenntaspjall – Gunnar Theodór Eggertsson
01/11/2016 @ 20:00
| kr.1500Gunnar Theodór Eggertsson spjallar um dýrasögur og barnabækur og fantasíur og hvað annað sem kemur upp í hugann í bókmenntaspjalli. Hann varði nýlega doktorsritgerð sína í almennri bókmenntafræði, sem nefnist Eiginleg dýr: Athuganir á veröldum dýra í tungumáli, menningu og sagnahefð, eða Literal Animals: An Exploration of Animal Worlds through Language, Culture and Narrative, við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.
Í ritgerðinni færir Gunnar Theodór rök fyrir pólitísku og siðfræðilegu mikilvægi dýrasagna og skilgreinir þær sem róttækt form andófsbókmennta þar sem gagnrýnd er stigveldishugsunin í samtíma okkar um manninn sem kórónu sköpunarverksins. Með því að leggja áherslu á hinar svokölluðu „raunsæju“ dýrasögur, eða það sem höfundurinn kallar „náttúruvísindaskáldskap“, er dregin sú ályktun að með því að „líkamnast“ inn í dýrslegar aðalpersónur öðlist lesendur innsýn í öðruvísi hugsunarhátt um samband manna og dýra. Dýrabókmenntir eru færðar í heimspekilegt og siðfræðilegt samhengi, til þess að draga fram alls kyns flækjur tengdar mannmiðjuhugsun og því að ímynda sér huglægt sjónarhorn annarra tegunda, en sögurnar eru oftar en ekki ritaðar í fyrstu persónu. Þannig vakna fjölmargar spurningar um áhrif dýrasagna, siðfræðilega og heimspekilega séð, og hvernig þær geta mótað hugsun okkar um önnur dýr. Svör við þeim spurningum eru hins vegar æði flókin og þótt meginefni ritgerðarinnar sé hin „raunsæja“ dýrasaga sem bókmenntahefð þá eru ýmsar hindranir til staðar sem þarf að tækla áður en hægt er að ávarpa sjálfar dýrasögurnar, svo sem tungumálið, menningarmismun, mannmiðjuhugsun og ekki síst beina og óbeina hagsmuni samfélags sem hlutgerir dýr sem neysluvörur.
Á heildina litið snýst ritgerðin um að endurskilgreina dýrasögur sem kraftmikla og mikilvæga bókmenntahefð, sem býr yfir pólitískri og siðfræðilegri þýðingu í samfélögum þar sem tilvist annarra dýra er talin mannfólkinu óviðkomandi. Af þeim sökum álítur höfundurinn að dýrasagan þurfi að komast aftur í fremstu víglínu umræðunnar. Vonin sem liggur ritgerðinni að baki er sú að hún hjálpi lesendum, höfundum, fræðifólki og útgefendum að skynja dýrasögur á nýjan og ögrandi hátt.
Gunnar Theodór Eggertsson er fæddur 9. janúar 1982. Hann lauk BA-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 2005, með listfræði sem aukagrein, og MA-prófi í kvikmyndafræði frá Háskólanum í Amsterdam árið 2006. Auk kennslu- og rannsóknarstarfa hefur Gunnar skrifað nokkrar bækur fyrir börn og ungmenni og hlaut m.a. Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir Steindýrin árið 2008 og tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Drauga-Dísu árið 2015.
Upplýsingar
- Dagsetn:
- 01/11/2016
- Tími:
-
20:00
- Verð:
- kr.1500
- Viðburður Category:
- Bókmenntaspjall
- Tök Viðburður:
- barnabækur, dýrasögur, fantasíur, náttúruvísidaskáldskapur
- Vefsíða:
- https://midi.is/atburdir/1/9824/Bokmenntaspjall-Gunnar_Theodor_Eggertsson