Hvað er betra en að orna sér í samveru við sögur og söngva í skammdeginu þegar myrkur og snjór umlykja dagana? Ekki sakar að láta uppí sig heimagert ljúfmeti úr eldhúsi Hannesarholts. Þessa vikuna ferðumst við með Jóni Thoroddsen á vegum ástarinnar, með Pilti og stúlku nokkurri og Manni og konu, í flutningi Katrínar Jakobsdóttur og Ævars Þórs Benediktssonar og með Siggu Eyrúnu og Kalla Olgeirs á vængjum ástarsöngsins fimmtudaginn 15.febrúar.
Svanlaug Jóhannsdóttir hefur leitað uppi skópör með sögu. Á konudaginn, sunnudaginn 18.febrúar lifna þau ævintýri í sögum og söng með undirleik Einars Bjarts Egilssonar píanóleikara. Rómantíkina í hversdeginum má finna í Hannesarholti þessa vikuna.