Þeir sem til þekkja vita að Hannesarholt stendur fyrir uppbyggilegu menningarstarfi af ýmsum toga í samvinnu við samborgara, fræðimenn og listamenn. Húsið er 103 ára gamalt og var heimili í 92 ár, þar með talið heimili Hannesar Hafstein síðustu æviárin. Undanfarin ár hefur Hannesarholt hýst sýningar fjölda myndlistarmanna, ungra sem aldinna, nýgræðinga jafnt sem meistara, en í Hannesarholti er ekki hefðbundinn sýningarsalur, hins vegar fá myndir að hanga á veggjum gamalla stofa veitingahúss og víðar, alla jafna í fjórar vikur í senn í bland við aðra menningarstarfsemi.
Af gefnu tilefni skal bent á að lýsingin á sýningu Þrándar Þóroddssonar sem Hannesarholt fékk í hendur er eftirfarandi: “Borgarlandslagið er sem fyrr í fyrirrúmi á þessari sýningu, í bland við mannlífslýsingar, kyrralífsmyndir og portrett af vinum listamannsins. Afhjúpuð verður mynd af stórbóndanum og rokkstjörnuni Prins Póló, en þeir Þrándur unnu náið saman í áraraðir, og verður prinsinn sérlegur heiðursgestur á sýningunni.“ Þetta segir allt um efni sýningarinnar. Hefur ekkert með pólitík að gera, bara mennsku.