Bygging hússins og nokkrir íbúar

Húsið við Þingholtsstræti er byggt árið 1881 skv. skýrslu Árbæjarsafns um Menntaskólareitinn (Nikulás Úlfar Másson og Margrét Jónasdóttir. 1994. Byggingasaga. Menntaskólareitur. Skýrslur Árbæjarsafns 43. Reykjavík: Árbæjarsafn)

Á húsinu er svokölluð gaflsneiðing sem gerir það virðulegt ásyndum og var tekin upp eftir elstu steinhúsum bæjarins, s.s. Viðeyjarstofu. Það ku hafa verið Helgi Helgason snikkari, trésmiður og tónskáld sem byggði húsið ásamt Bjarna Guðmundssyni múrara (sbr.  útvarpsþáttinn Flakk 2007, viðtal Lísu Páls við Guðjón Friðriksson).

Húsið er háð þjóðminjalögum um allar breytingar á núverandi ástandi þess vegna aldurs.

Fyrsti eigandi hússins var Benedikt Gröndal, hann reisti það og bjó þar til 1887 en svo ólánlega vildi til að kona hans andaðist sama ár og þau fluttu í húsið. Jón Jensson yfirdómari keypti húsið af Benedikt Gröndal árið 1887 (sbr. Pál Líndal: Reykjavík Sögustaður við Sund, 3. b.)  og amtmannsekkjan Caroline Jónassen (sjá grein) um tíma.

Bjarni Sæmundssen keypti húsið árið 1904 – (sjá grein) og bjó í því til dauðadags, en hann lést í nóvember 1940 (minning).

Í grein Guðjóns Friðrikssonar Töfrarnir höfðu gripið frá 1978 má lesa eftirfarandi:

Í Þingholtsstræti 14 bjó ákaflega fín frú ásamt einni vinnukonu og eru þá allir ibúarnir taldir upp og er fátítt að hús telji svo fáa íbúa á þeim tíma. Þetta er amtmannsekkjan Caroline Jónassen eins og stendur i manntalinu. Hun er 51 árs og búin að vera ekkja eftir manninn sinn sálaða Eggert amtmann í 10 ár. Aftur hafði búið í húsinu Jón Jensson assesor, bróðursonur Jóns Sigurðssonar forseta, og seinna bjó í þvi Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur. Þetta er þvi aldeilis virðulegt hús og ekki má gleyma að amtmannsekkjan Jónassen var fædd Siemsen.

Í Fasteignablaði Mbl. 6. mars 2006 má lesa þetta:

Benedikt Gröndal, skáld, bókmenntafræðingur og náttúrufræðingur, var ekki síður mikils metinn í kringum aldamótin. Hann gaf út fjölda ritverka, greina, þýðinga og skáldverka. Benedikt bjó að Þingholtsstræti 14 í 6 ár en þá eignaðist húsið Jón Jensson, dómari í Landsyfirrétti, bæjarfulltrúi og þingmaður Reykvíkinga. Hann seldi dr. Bjarna Sæmundssyni náttúrufræðingi húsið árið 1904, en fyrsti vísir að Hafrannsóknastofnuninni var í kjallara þess og Bjarni eini starfsmaðurinn. Bjarni gaf út fjölda náttúrufræðirita. Eftir daga Bjarna hefur húsið verið í fjölskyldu hans, eða til ársins 1998 þegar núverandi eigendur keyptu húsið.

Margskonar upplýsingar koma fram í þessari umfjöllun sem gaman er að lesa.

Við húsið að Þingholtsstræti 14 var mikill og fallegur trjágarður sem skemmdist í bruna við Amtmannsstíg 4 árið 1946.

Húsið, starfsemi og fleira í dagblöðum liðinna tíma

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

  • 1906: Blómkál til sölu í Þingholtsstræti 14 (augl.). Svipaðar auglýsingar birtast einnig árin 1915, 1936 og 1939.
  • 1925: Stúlka óskast í árdegisvist með annari stúlku. Steinunn Sæmundsson, Þingholtsstræti 14 (augl.)
  • 1926: Stúlka óskast í vist með annari. Frítími til náms fáanlegur. Gott kaup. Þingholtsstræti 14 (augl.)
  • 1927: Píanókenslu tek ég að mér nú eftir nýárið. Kristín Bjarnadóttir, Þingholtsstræti 14 (augl.)
  • 1928: Ungfrú Kristín Bjarnadóttir, Þingholtsstræti 14, auglýsir kenslu í píanóspili í blaðinu í dag. Hún hefir að undanförnu verið við nám hjá Haraldi Sigurðssyni í Kaupmannahöfn (augl.) Auglýsingar um píanókennslu birtast öðru hverju allt til ársins 1962.

Klukkan um 11 stanzaði bíllinn fyrir utan Þingholtsstræti 14. Þar var dótið borið út og þjár af okkur stigu út. Þar beið okkar forvitið fólk og heitur kveldmatur. Þótti heimilisfólkinu við ekki hafa fríkkað í ferðinni, og höfum við oft seinna heyrt skáldlegar lýsingar á því, hve draslaralegar og útiteknar við hefðum verið.

  • 1932: Kensla. Get tekið nokkra nemendur í ensku. Anna Bjarnadóttir, Þingholtsstræti 14. Simi 1505 (augl.)
  • 1933: „Þrír bruggarar sektaðir“ – þar af danskur maður til heimilis að Þingholtsstræti 14 (frétt)
  • 1935: Teikniskólinn hefst í október. Kennd verður fríhendisteikning, perspektiv, meðferð á vatns- og olíulitum. Einnig að móta í leir. Nýtísku kennsluaðferðir. Margskonar fyrirmyndir (lifandi model). Upplýsingar hjá Marteini Guðmundssyni, Þingholtsstræti 14. Sími 4505 frá kl. 12 1/2-1 1/2 og eftir kl. 8 e. h. Marteinn Guðmundsson, Björn Björnsson (augl.) – Svipaðar auglýsingar birtast allt til 1940.

Eftir andlát amtmanns (29. sept. 1891) flutti ekkjan í Þingholtsstræti 14, og trjen með sjer, líklega vorið 1892. Þar eru þau enn að norðanverðu í trjágarði dr. fíjarna Sæmundssonar, og eru með hæstu trjám í bænum: 7,32-6,23 og 5,31 m. á hæð. Mörg önnur yngri og fögur trje eru í garði dr. B.Sæmundssonar. Þar á meðal hlynur 6,48 m. og 78 sm. við rót, en 58 sm. á 1 m. hæð. Hæsta trje í bænum er þar líka, fögur björk 7,79 m. (24,8 fet) og 98 sm. ummáls við rótina, en skiftist þar þegar í tvo stofna. Óvíst hvaðan komið.

  • 1937: Blómkáls, Hvítkáls og Rauðkáls plöntur úr köldum reit. Þingholtsstræti 14. Sími 4505 (augl.)
  • 1946: „Slökkviliðið bjargar 8 húsum“ – Mikill bruni varð í nóvember 1946 þegar eldur kom upp í Amtmannsstíg 4 og komst þá eldur að Þingholtsstræti 14 að utan en það bjargaðist þó (grein) – Nákvæm lýsing á eldsvoðanum eins og hann horfði við húsinu nr. 14 er í Mbl. frá 19. nóv. 1946:Trjágarður dr. Bjarna Sæmundssonar. Einn fallegasti og merkilegasti trjágarðurinn hjer í bænum stórskemdist eða eyðilagðist að mestu í eldsvoða þessum, garðurinn við Þingholtsstræti 14 þar sem Bjarni heitinn Sæmundsson náttúrufræðingur bjó. A undan honum bjó þar Benedikt Gröndal. Hann ræktaði fyrst þenna garð og gróðursetti þar trje. Þar voru nokkur mjög falleg reynitrje, er Gröndal hafði gróðursett, þau voru um 70 ára gömul. Þau eyðilögðust að mestu. Vestast í garðinum við vesturgirðinguna, og því næst húsinu Amtmannsstíg 4, var lítið lystihús. Rjett hjá því var geisistór hlynur, sennilega sá fallegasti, sem hjer hefir nokkru sinni vaxið. Laufkróna hans breiddi sig yfir lystihúsið. Um leið og kviknaði í húsinu, stóð hlynurinn í björtu báli. Björk ein mikil var þar og, er brann að mestu. Fyrir 15 árum var hún hæsta trje, sem þá var hjer í Reykjavík. Þegar trjen brunnu, stóðu þau sem logandi blys í storminum. Fuku af þeim hálfbrunnar logandi greinar. Húsið Þingholtsstræti 14 skemdist ekki mikið af eldinum, nema hvað rúður brotnuðu af hitanum og varð mikið neistaflug inn um gluggana, er þeir voru opnir orðnir, einkum frá trjánum, eftir að þau tóku að brenna. Borið var alt út úr þessu húsi, og næstu húsum við Þingholtsstræti. Hafa íbúar þessara húsa orðið fyrir miklu tjóni, af því að húsmunir hafa skemst mikið við útburðinn.
  • 1962: Hæstu trén í bænum, grein eftir Hákon Bjarnason.„Um mörg ár voru björk og reynir í garði Bjarna Sæmundssonar við Þingholtsstræti 14 talin hæstu tré bæjarins. Því miður fórust þau bæði við húsbruna á Amtmannsstíg fyrir einum tug ára eða svo. Var mikil eftirsjá að björkinni, því að hún var með fallegustu trjánum í bænum og fast að 10 metrum á hæð.“
  • 1967: Aldarafmæli: Bjarni Sæmundsson (grein)
  • 1972: Úr grein Mbl. um Þingholtsstrætið – hér áður fyrri:Við nemum staðar til að taka mynd af húsinu, sem ber númerið 14. Það var byggt af fyrsta visindamanninum sem þetta eyland eignaðist á sviði haffræði og fiskirannsókna, Þingholtsstræti 14. Hús dr. Bjarna Sæmundssonar. Grindvíkingnum Bjarna Sæmundssyni (grein)
  • 1977: Indverskur jógi flytur erindi í Þingholtsstræti 14 (tilkynning)