Tvö hús – fyrir og eftir bruna

Húsið sem nú stendur við Þingholtsstræti 23 var byggt árið 1914 skv. fasteignaskrá. Heimildir virðast þó sýna að það gæti hafa verið byggt allt að 3 árum fyrr (sbr. auglýsingar í dagblöðum hér neðar). Þar á undan stóð á lóðinni hús, einnig kallað Þingholtsstræti nr. 23 sem brann þ. 22. janúar 1910 (frétt). Það hús átti a.m.k. um tíma Guðmundur Jakobsson í byrjun aldarinnar.

Eigandi Þingholtsstrætis 23 þegar bruninn átti sér stað var Lárus Benediktsson fyrrverandi prestur frá Selárdal en þó nokkuð af fólki bjó í húsinu. Þekktastur íbúanna er án efa Guðmundur Magnússon skáld (Jón Trausti) en honum tókst að bjarga óprentuðum handritum sínum.

Úr frétt um brunann
Húsbruni í Reykjavik. Aðfaranótt 22. þ. m. kom upp eldur mikill í húsinu Þingholtsstr. nr. 23, eign Lárusar Benedik[t]ssonar fyrv. prests frá Selárdal. Var klukkan hér um bil 12 1/2 þegar eldurinn sást fyrst af þeim sem um götuna gengu: var þá enginn vaknaður í húsinu. Eldurinn kom upp í borðstofu frú Halldóru Blöndal, er bjó í suðurenda hússins niðri. Fólk alt bjargaðist, en flestalt fáklætt; misti það mestallar eigur sfnar, og er tap margra mjög svo tilfinnanlegt. Á efsta lofti hússins bjó eigandinn sjálfur, séra Lárus; á miðloftinu bjuggu tvær fjölskyldur, Guðm. Magnússon skáld og ekkjufrú Ingunn Blöndal. Niðri bjuggu stud. jur. Páll E. Ólason og frú Halldóra Blöndal. Engu varð bjargað, nema nokkru frá Páli Eggert. Guðmundi skáldi hepnaðist þó að ná með sér handritum sfnum sem óprentuð voru. Að eins tveir höfðu vátrygt innanstokksmuni sína, þeir Lárus prestur og Guð: mundur Magnússon. I kjallara undir húsinu var préntsmiðja »Frækorna« og brann hún. Hún var vátrygð fyrir 5400 kr. Þar brann og upplag af bókum er sumar voru óútkomnar (frétt).

Nýja húsið byggði Jörgen Emil Jensen árið 1912 skv. einni heimild (sem ekki passar við ártalið 1914 frá fasteignaskrá). Jörgen Emil var danskur en kvæntur íslenskri konu. Hann bjó í húsinu og rak  þar bakarí (sjá heimild bls. 8).

Einnig er vitnað til þess hjá Iðnaðarmannatali Suðurnesja að Eyjólfur Ólafsson Ásberg (1891-1954) hafi rekið bakarí í Þingholtsstræti 23 í nokkur ár áður en hann fluttist til Keflavíkur árið 1914 en þó eru ártöl svolítið á reiki (Iðnaðarmannatal Suðurnesja) því Eyjólfur kemur fyrir í auglýsingu um bakarí í Þingholtsstræti árið 1915.

Nýja húsið sem byggt var eftir brunann virðist hafa verið sannkallað brauðgerðarhús, því margir komu þar að og ráku bakarí í gegnum tíðina.

Meðal þess sem vitað er um íbúa og bakara í húsinu, má nefna að Jón Símonarson bakarameistari stofnaði bakarí í Þingholtsstræti 23 við annan mann árið 1918 þó hann stoppaði stutt við, ekki nema um eitt ár.

Gísli Ólafsson bakarameistari stofnaði brauða- og kökugerð í húsinu árið 1923 ásamt Kristni Magnússyni bakarameistara og virðist hafa starfrækt til 1926. Bæði Gísli og Kristinn bjuggu í húsinu ásamt fjölskyldum sínum og má geta þess að Erlingur Gíslason leikari, sonur Gísla, fæddist í þessu húsi. Kristinn eignaðist m.a. dóttur sem Sigríður hét og bjó hún í húsinu í heil 50 ár.

Loks hóf Sofus Jensen (stundum skrifað Sophus) rekstur bakarís í húsinu ásamt konu sinni, Helgu Jensen, árið 1938.

Rishæð núverandi húss virðist vera byggð árið 1989 skv. upplýsingum í grein frá fasteignasölu (grein). Húsið fékk styrk frá Húsafriðunarnefnd 1998 (sjá tilkynningu).


Húsið í dagblöðum liðinna tíma

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

  • 1900: Dömur og stúlkur geta fengið tilsögn í margs konar hannyrðum hjá mér. Einnig býð ég áteikning og máluð munstur til að sauma eftir. Mig er að hitta heima frá 11- 1. Sigríður E. Sæmundsson, Þingholtsstræti 23 (augl.)
  • 1901: Frá 14. maí fást herbergi fyrir einhleypa eða litla fjölskyldu í húsi Guðmundar Jakobssonar, Þingholtsstræti 23 (augl.)
  • 1901: Tvö lítil herbergi fást til leigu frá 1. október. Uppbúin rúm geta fylgt ef vill. Semja má við Guðmund Jakobsson, Þingholtsstræti 23 (augl.)
  • 1901: Undirrituð tekur að sér að kenna börnum til munns og handa, eins og að undanförnu. Ragnheiður Jensdóttir. Þingholtsstræti 23 (augl.)
  • 1902: Fræsölu gegni ég hvern virkan dag kl. 2-3 og kl. 4-6 e. m. Þingholtsstræti 23. Ragnheiður Jensdóttir (augl.)
  • 1902: Fræsala. Þrándheimska gulrófufræið, svo og allt annað matjurtafræ og blómfræ selur og afhendir fröken Ragnheiður Jensdóttir í Þingholtsstræti nr. 23 (í næsta húsi norðan við spítalann). Gulrófnafræið kostar nú pundið 5 krónur og lóðið 20 aura; annað fræ með svipuðu verði og verið hefur. Pöntunum er alls eigi sinnt nema borgun fylgi. Reykjavík 26. marz 1902. Þórh. Bjarnarson (augl.)
  • 1904: Uppboðsauglýsing. Laugardaginn 7. maí næstkom. kl. 11 f. hád. verður opinbert uppboð haldið í Þingholtsstræti nr. 23 og þar selt töluvert af stofugönum, eldhúsgögnum, rúmfatnaði o.m.fl. tilheyrandi dánarbúi ekkjufrúar Guðlaugar Jensdóttur (augl.)
  • 1904: Ævintýrið Jóhönnuraunir. Snúið af þýzku undir íslenzk fögur rímnalög af Snorra Bjarnarsyni. Þriðja útgáfa þessarar góðkunnu bókar, sem fyrir langa löngu er uppseld, kemur út í öndverðum septembermánuði, um 72 bls. að stærð. Verð 50 au. Útgefandi:Þorlákur Reykdal. Þingholtsstræti 23, Rvík (augl.)
  • 1904: Afgreiðsla Frækorna er í Þingholtsstræti 23, Reykjavík (augl.)
  • 1904: Bóka- og nótnaprentsmiðju D. Östlunds,  Þingholtsstræti 23, Reykjavík, eru menn beðnir að muna eftir, er þeir kynnu að vilja láta prenta eitthvað. Verkið vandað. Verðið mjög sanngjarnt (augl.)
  • 1904: Hestur til leigu. Þingholtsstræti 23, Rvík. N. Andrésson (augl.)
  • 1904: Landsyfirréttardómur var upp kveðinn 11. þ. m. í sakamáli gegu Jóni kaupm. Helgasyni fyrir skjalafals. Annar tveggja votta var Jón Hannesson til heimilis að Þingholtsstræti 23 (frétt)
  • 1905: Úr Talsímaskrá: Östlund, D., trúboði, Þingholtsstræti 23 (talsímaskrá)
  • 1905: Dan líftryggingafélag. Skrifstofa félagsins er í Þingholtsstræti 23, Reykjavík (augl.)
  • 1905: 3 herbergi og eldhús á 3. lofti i Þingholtsstræti 23 til leigu frá 1. okt. – Ágæt útsjón. – Vatnsveita (augl.)
  • 1906: Kensla. Undirrituð tekur að sér að kenna byrjendum klaver og harmoniumspil. Frú Anna Pálsdóttir. Þingholtsstræti 23 (augl.)
  • 1906: Kennsla handa unglingum og fullorðnum…. Helgi Valtýsson. Þingholtsstræti 23 (augl.)
  • 1907: Skólablaðið er gefið út af kennurum Flensborgarskólans. Ritstjóri og ábyrgðarmaður er Helgi Valtýsson, Þingholtsstræti 23 (augl.)
  • 1908: Ensku og dönsku kennir Lára I. Lárusdóttir, Þingholtsstræti 23 (augl.)
  • 1908: Skrifstofa og afgreiðsla „Rvíkur“ er flutt í Þingholtsstræti nr. 23 (augl.)
  • 1908: Magnús B. Blöndal, Þingholtsstræti 23, er ritstjori, afgreiðslumaður og gjaldkeri blaðsins „Reykjavík“ (augl.)
  • 1909: Kensla. Við undirritaðar tökum að okkur að kenna ungum stúlkum eftirfarandi námsgreinar: frönsku, ensku, dönsku, reikning, fortepíanospil og hannyrðir. – Gjald lægra fyrir þær, sem taka þátt í mörgum af námsgreinunum. Lára I. Lárusdóttir. Bennie Larusdóttir. Þingholtsstræti 23 (augl.)
  • 1910: Nýja bakaríið í Þingholtsstræti 23 hefir ávalt upplag af tvíbökum, kringlum og skonroki. Með virðingu, Emil Jensen (augl.)
  • 1910: Ádeila á slökkviliðið í Reykjavík vegna húsbruna í Þingholtsstræti 23, 22. janúar 1910 (frétt)
  • 1910: Húsbruni í Reykjavik. Aðfaranótt 22. þ. m. kom upp eldtir mikill í húsinu Þingholtsstr. nr. 23, eign Lárusar Benedikssonar fyrv. prests frá Selárdal (frétt)
  • 1911: Skv. jarðarfarartilkynningu búa Ragnh. og Emil Jensen í Þingholtsstræti 23 og því spurning hvort nýtt hús hafi verið byggt strax það ár? (Tilkynning)
  • 1911: Læknadeild Háskólans veitir ókeypis læknishjálp þannig: Lyflæknis og handlæknissjúkdómar: Þriðjudaga og föstudaga kl. 12 – 1 (Þingholtsstræti 23) (augl.)
  • 1912: Lækning ókeypis Þingholtsstræti 23. kl. 12-1 (augl.)
  • 1915: Í Brauðgerðarhúsinu í Þingholtsstræti 23 eru ódýrustu brauð bæjarins. Eyjólfur og Kristinn (augl.)
  • 1915: Veski með peningum í hefir tapast i Þingholtsstræti. Skilist til frú Finnbogasonar, Þingholtsstræti 23 (augl.)
  • 1918: Bakarí & Conditori verður opnað á morgun í Þingholtsstræti 23. Talsími 243. Undirritað firma rekur bakarí og kökugerð með fyrsta flokks tækjum og áhöldum. – Iðnrekendur eru hr. Ágúst Jóhannesson conditor og hr. Jón Símonarson bakari, sem báðir hafa margra ára reynslu í iðn sinni, bæði utanlands og innan.Ágúst-Jón & Co (augl.)
  • 1921: Jarðarför ekkjufrú C. Zimsens, fcr fram þriðjudag 8. og hefst kl. 1 síðd. frá heimili hennar Þingholtsstræti 23 (tilkynning)
  • 1923: Gísli & Kristinn, brauð- og kökugerð, Þingholtsstræti 23 (augl.)
  • 1925: Reynið bollurnar frá okkur í dag sem búnar eru til úr íslensku smjöri, þá munuð þið ekki kaupa þær annars staðar á morgun en í búðum okkar í Þingholtsstræti 23, á Vesturgötu 20 og í Tjarnargötu 5. – Einnig sendar heim allan daginn heitar.Gísli & Kristinn (augl.)
  • 1926: Stúdent, vanur kenslustörfum vill veita nemendum tilsögn. – Upplýsingar gefur Jóhannes kennari Sigfússon, Þingholtsstræti 23. Sími 831 (augl.)
  • 1926: 25-30 hænuungar og 2 hænsnakofar til sölu. Uppl. í bakaríinu Þingholtsstræti 23. (Ásgrímur Ágústsson) – (augl.)
  • 1930: Jarðarför mannsins míns, Jóhannesar Sigfússonar, Mentaskólakennara, fer fram frá dómkirkjunni á morgun, 23. þ . m. og hefst að heimili hans, Þingholtsstræti 23, kl. 11 f. h. Cathinca Sigfússon (tilkynning)
  • 1938: Bakaríið, Þingholtsstræti 23. Sími 4275. (Áður Gísli & Kristinn) – (augl.)
  • 1938: Höfum flutt vinnustofu okkar og skrifstofu í Þingholtsstræti 23. Magni h,f. Bjargarstíg 2. Sími 2088 (augl.)
  • 1938:Tilkynning. Jeg undirritaður hefi tekið við rekstri á bakaríi Kristins Magnússonar, Þingholtsstræti 23. Vænti jeg þess, að heiðraðir viðskiftavinir bakarísins láti mig njóta viðskiftanna áfram. Alt fyrsta flokks vörur. Fljót afgreiðsla. Fylsta hreinlætis gætt í hvívetna. Sophus Jensen (augl.)
  • 1940: Félagsbakaríið. Vér bjóðum yður fyrsta flokks kökur i fjölbreyttu úrvali, ásamt okkar góðu rjómatertum og kökum. Ath.: Ávalt nýjar kringlur og tvibökur. – Félagsbakaríið, Þingholtsstræti 23. Sími 4275 (augl.)
  • 1942: Sendisveinn óskast strax. Heildverslun Jóhanns Karlssonar & Co. Þingholtsstræti 23 (augl.)
  • 1943: Bakarar nota rafmagn í stað kola. „…Bökunarofnarnir smíðaðir hér á landi.en auk þess er verið að setja upp rafmagnsofn í Þingholtsstræti 23.“ (Frétt)
  • 1949: Sænskur málari „…Samtímis verður þeim er hug hafa á, gefinn kostur á að sjá fleiri af mynd um Siri Derkert í núverandi bú stað hennar í Þingholtsstræti 23, en nánari vitneskju um sýn ingartíma þar geta menn fengið í Miðgarði.“ (Frétt)
  • 1950: Til leigu lítið herbergi í Þingholtsstræti 23 í sept fyrir reglusaman pilt eða stúlku. Til sýnis og viðtals milli kl. 5-7 í dag. Guðrún J. Erlings (augl.)
  • 1951: Hefi opnað á ný Bakaríið Þingholtsstræti 23 (augl.)
  • 1957: María Mack er skráð á Þingholtsstræti 23 sbr. frétt um hlutaveltu frá Sjálfstæðiskvennafélaginu Hvöt [prentvilla?] – (tilkynning)
  • 1960: Viðtal við Erling Gíslason, leikara. „Því er til að svara, að ég er fæddur að Þingholtsstræti 23 hér  í bæ, þann 13/3 ’33. Var þriðja  barn móður minnar, sem var 33 er hún fæddi mig í heiminn.“ (Viðtal)
  • 1961: Prentver Þingholtsstræti 23 (augl.)
  • 1962: ÁSRÚN, Þingholtsstræti 23 [prentsmiðja] – (augl.)
  • 1962: Ægisútgáfan , Þingholtsstræti 23. Sími 14219 (augl.)
  • 1964: Bókaútsala, Þingholtsstræti 23 (augl.)
  • 1969: Hef flutt tannlækningastofu mína að Þingholtsstræti 23. Símanúmer óbreytt 20470. Haukur STeinsson, tannlæknir (augl.)
  • 1973: Seljendur eigna. Hef góða kaupendur að öllum stærðum af ibúðum og einbýlishúsum. Sigurður Helgason, Hrl., Þingholtsstræti 23 – Simi 42390 (augl.)
  • 1979: Húsbruni í Þingholtunum: Hugsanlega um íkveikju að ræda. „Miklar skemmdir urðu á húsinu við Þingholtsstræti 23 f Reykjavík þegar eldur kom upp f því á sunnudagskvöld.“ (Frétt)
  • 1975: Guðrún Einarsd. selur db. Sumarliða Betúelss. húseignina Þingholtsstræti 23 (tilk.)
  • 1983: Gallerí og vinnustofa Guðbergur Auðunsson hefur opnað gallerí að Þingholtsstræti 23 (frétt)