Bygging, flutningur, nokkrir íbúar
Upphaflega var byggt á þessari lóð veglegt timburhús um aldamótin 1900. Þar tók m.a. nýstofnaður Lagaskóli til starfa árið 1908 og var til húsa þar til Háskóli Íslands var stofnanður 1911. Frá 1918 var þar hússtjórnarskóli um skeið en síðan var það notað til íbúðar (sbr. Páll Líndal. (1988) Reykjavík: Sögustaður við Sund. 3. b.: R-Ö bls. 188. Reykjavík: Örn og Örlygur)
Árið 1957, á aðfangadagskvöld brann það hús til kaldra og lóðin stóð síðan óbyggð í um tvo áratugi.
Húsið sem nú stendur við Þingholtsstræti 28 má með sanni kalla hálfgerðan flakkara því áður stóð það hinum megin við götuna sem Þingholtsstræti 27 til ársins 1978. Húsið er hins vegar upphaflega byggt árið 1896 af Jóni Jenssyni yfirdómara. Þó segir í frétt um flutning hússins 1978 að það sé reist árið 1897. En það ku vera svokallað verðlistahús frá Noregi.
Í greininni Glæsilegt timburhús í Gamla bænum í Mbl. frá 1995 segir orðrétt:
Þetta hús á sér nokkra sögu. Það var upphaflega byggt 1896 af Jóni Jenssyni yfirdómara og bróðursyni Jóns Sigurðssonar forseta. Þá stóð húsið hinum megin götunnar að Þingholtsstræti 27 og þótti þá sem nú afar glæsilegt, enda byggt af miklum metnaði. Síðan áttu húsið þeir Davíð Scheving Thorsteinsson læknir og Kristinn A. Andrésson í Máli og menningu og eftir það bjuggu þar listamenn og rithöfundar eins og Sigfús Daðason og Jón Múli Árnason.
Björn Traustason byggingameistari keypti húsið á síðasta áratug og flutti það vestur yfir götuna á núverandi stað og sneri því um leið í hálfhring, þannig að framhlið og svalir snúa áfram út að Þingholtsstræti. Björn gerði húsið upp af miklum metnaði að utan. Hann steypti jafnframt nýjan sökkul undir húsið en notaði grjótið úr gamla sökklinum til þess að hlaða garð í kringum húsið.
Þess má geta að á lóðinni við húsið nr. 27 var árið 1945 eða 1946 byggt nýtt hús) sem einnig var nr. 27 og í þessari litlu umfjöllun er ekki fjallað um það að sinni.
Bruni við Þingholtsstræti 28 1957
Húsið sem áður stóð við Þingholtsstræti 28 brann þ. 24. des. 1957. Um það má m.a. lesa í heimild frá Borgarskjalasafni.
Á vefnum Wikipedia er grein um Þingholtsstræti 28 og þar segir:
Hússtjórn var hús að Þingholtsstræti 28. Þann 24. desember árið 1957 kom upp eldur í húsinu í íbúð Bjarnþórs Þórðarsonar bóhems og þýðanda. Í húsinu bjó þá líka Jón Dúason fræðimaður og brann allt bókasafn hans í brunanum.
Af þekktum einstaklingum sem bjuggu í húsinu sem upphaflega var nr. 27 má, eins og áður er getið, nefna Jón Jensson yfirdómara, Davíð Scheving Thorsteinsson lækni og Kristinn E. Andrésson bókaútgefanda. Auk þess Sigfús Daðason rithöfund, Jón Múla Árnason og Stefán Ögmundsson prentara. María Maack forstöðukona í Farsóttarhúsinu er sögð til húsa í Þingholtsstræti 27 í blaðaauglýsingu árið 1950. Loks má nefna að Valgeir Guðjónsson og Ásta K. Ragnarsdóttir bjuggu þar í nokkur ár.
Húsið (sem áður var nr. 27) í dagblöðum liðinna tíma
- 1905: Úr talsímaskrá: 141. – Jensson, yflrdómari, Þingholtsstræti 27 (augl.)
- 1913: Formiðdagsstúlka óskast frá.1. júlí í Þingholtsstræti 27 (augl.)
- 1915: Jarðarför Jóns yfirdómara Jenssonar fer fram á laugardaginn, 3. júli, og hefst kl. 12 með húskveðju á heimili hins látna, Þingholtsstræti 27 (augl.)
- 1915: Allsk. grænmeti og lifandi blóm fást í Þingholtsstræti 27 frá. kl. 8-12 á hádegi (augl.)
- 1915: 2 tíu-króna seðlar hafa tapast. Skilist í Þingholtsstræti 27, gegn fundarlaunum (augl.)
- 1915: Duglega og þrifna stúlku vantar 1. okt. Þingholtsstræti 27 (augl.)
- 1916; Kensia í ensku og hraðritun Eg undirrituð tek að mér að kenna að tala og skrifa ensku. Einnig kenni ég enska hraðritun, Pitman’s Shorthand, sem einnig má nota við önnur mál (frönsku, þýzku). Hittist til viðtals í Þingholtsstræti 27 eftir 8 síðd. S. M- Macdonald (augl.)
- 1916: Lessons in English and Stenography. Terms kr. 1.25 pr. lesson. Payable monthly in advance. S. M. Macdonald, Þingholtsstræti 27 (augl.)
- 1916: Til leigu bjart og gott kjallarapláss, hentugt fyrir vörugeymslu.- Þingholtsstræti 27 (augl.)
- 1919: Jarðarför Erlendar Sveinssonar klæðskera fer fram í dag (25. þ.m.) Hefst með húskveðju kl. 1 1/2 e.m. frá heimili hans, Þingholtsstræti 27. Kona og börn hins látna (augl.)
- 1924: Sigurður Þórðarson, f. sýslumaður, er fluttur í Þingholtsstræti 27 (augl.)
- 1924: Jeg undirrituð sauma og kenni ljereftasaum. Elísabet Erlendsdóttir, Þingholtsstræti 27. Fyrst um sinn á Grettisgötu 27 (augl.)
- 1925: Þrifin stúlka og vön húsverkum, óskast tveggja mánaða tíma. Uppl. Þingholtsstræti 27 (augl.)
- 1925: Skrá yfir lækna frá 1925: Davíð Sch. Thorsteinsson, Þingholtsstræti 27, s. 705 (augl.)
- 1926: Hvít hæna tapaSist í fyrradag úr Þingholtsstræti 27 (augl.)
- 1927: Árdegisstúlka óskast um tíma sökum veikinda annarar, helst strax, í Þingholtsstræti 27. Þórunn Thorsteinsson (augl.)
- 1931: Guðmundur Magnússon klæðskeri, Þingholtsstræti 27, verður 50 ára á morgun (tilkynning)
- 1933: Sjálfblekungur gleymdist á pósthúsinu 13. þ. m. Skilist i Þingholtsstræti 27, gegn fundarlaunum. D. Sch. Thorsteinsson læknir (augl.)
- 1933: Tómar hálfflöskur eru keyptar í Þingholtsstræti 27 (kjallara) – (augl.)
- 1934: Kjallarapláss verður laust 1. okt. i Þingholtsstræti 27, til atvinnureksturs eða geymslu (augl.)
- 1935: Gullbrúðkaup eiga þ. 14. þ. m. hjónin frú Þórunn og Dauíð Scheving Thorsteinsson læknir, Þingholtsstræti 27. (Fálkinn 06.07.1935)
- 1938: Jarðarför mannsins míns, Davíðs Sch. Thorsteinsson, fyrv. hjeraðslæknis, fer fram miðvikudaginn 16. þ. m, og hefst með húskveðju á heimili mínu, Þingholtsstræti 27. Þórunn Thorsteinsson (augl.)
- 1938: Minningarorð og æviágrip Davíðs Scheving Thorsteinssonar eftir V. St. í Morgunblaðinu 8. mars 1938 (augl.)
- 1938: Sólrík stofa og lítið herbergi samliggjandi, hentugt fyrir tvo til leigu í Þingholtsstræti 27 (augl.)
- 1940: VÖNDUÐ stúlka vön húsverkum óskast í vist 1. okt. Uppl. i Þingholtsstræti 27. Guðrún Thorsteinsson (augl.)
- 1942: Móðir okkar, frú Þórunn Sch. Thorsteinsson, andaðist að heimili sínu, Þingholtsstræti 27, aðfaranótt mánudags þ. 16. mars. Börnin (augl.)
- 1942: Þórunn Sch. Thorsteinsson. Minningarord eftir V. St. (Mbl. 26.03.1942)
- 1945: Augl. Heildverslun Jóh. Karlsson & Co. í Þingholtsstræti 27. Sími 1707 (augl.)
- 1946: Til leigu verður pláss fyrir búðir, skrifstofur eða annan rekstur í nýbygðu húsi við Þingholtsstræti 27 í sumar eða haust (augl.)
- 1957: „Stórbruni virtist yfirvofandi í Þingholtunum er „Hússtjórn“ brann„. (Undanfari þess að gamla húsið nr. 27 flyst yfir götuna) – (frétt)
- 1974: Frétt um bruna í húsinu nr. 27 við Þingholtsstræti ( frétt)
- 1975: Frétt um bruna í þingholtsstræti 27 – (frétt)
1977: Maður fórst í húsbruna að Þingholtsstræti 27 (frétt)
- 1977: Úr annarri frét t um brunann: …„Þingholtsstræti 27 hefur staðið autt undanfarin 2-3 ár, að undanskilinni vinnustofu í kjallara. Þá kviknaði í húsinu og hafa gluggar verið byrgðir síðan og húsið verið mannlaust“. Síðar í fréttinni: …„Húsið að Þingholtsstræti 27 er verndað og á að standa til frambúðar. Ráðgert er að flytja það yfir götuna á grunn sem þar hefur verið gerður. Húsið er fallegt en skemmt eftir tvo bruna auk þess sem það hefur verið autt í nokkurn tíma. Það er tvær hæðir og ris.“ (frétt)
- 1978: (23.júní) Frétt: S.l. mánudagskvöld var húsið við Þingholtsstræti 27 flutt af grunni sinum yfir á nýjan grunn hinum megin götunnar. „Það var fyrsta tilhöggna timburhúsið sem flutt var til Reykjavíkur frá Noregi árið 1897 og gerði það Jón Jensson háyfirdómari, sem bjó i húsinu árum saman. Síðan keypti það Davið Scheving læknir við Farsóttarhusið sem er næsta hús númer 25 við Þingholtsstræti. Húsið mun verða gert upp i sinni upprunalegu mynd að utan, en engin ákvæði um verndun innvolsins voru I skilmálum byggingaleyfisins.“ (frétt)
- 1978: Gamalt hús flutt (frétt)
- 1978: Timburhúsið sem flutt var að Þingholtsstræti 28: Liggur nú undir skemmdum. (Myndir fylgja) – (frétt)
- 1980: Brunarústirnar sem byggja á upp að Þingholtsstræti 28: Ekkert verið gert í nokkur ár – Borgarstjóra falið að ganga i málið (frétt)
- 1980: Hirðuleysi í Þingholtsstræti 28 mótmælt: Verður lódin tekin aftur eða settur byggingarfrestur? Húsið hefur fengið að grotna síðan 1976 (frétt)
- 1981: Dagsektum hótað í Þingholtunum (frétt)
- 1981: Þingholtsstrætí 28. Byggingarfrestur ákveðinn (frétt)
- 1985: Verkstæðið V hefur göngu sína (frétt)
- 1995: Glæsilegt timburhús í gamla bænum (frétt)
var _gaq = _gaq || []; _gaq.push(['_setAccount', 'UA-38855006-1']); _gaq.push(['_trackPageview']);
(function() { var ga = document.createElement('script'); ga.type = 'text/javascript'; ga.async = true; ga.src = ('https:' == document.location.protocol ? 'https://ssl' : 'http://www') + '.google-analytics.com/ga.js'; var s = document.getElementsByTagName('script')[0]; s.parentNode.insertBefore(ga, s); })();