Byggingár og fyrstu íbúar

Samkvæmt upplýsingum á vef Kvennasögusafns Íslands voru það hjónin Kristín Vídalín Jacobson og Jón Jacobson sem létu reisa þetta hús að Þingholtsstræti 34 og fluttu þangað inn árið 1900 (heimild sótt 9.des. 2010).

Kristín Vídalín fyrsta íslenska konan sem stundaði nám í málaralist. Það gerði hún í Kvenna-akademíunni í Kaupmannahöfn árin 1890-92 (sjá heimild á vef Kvennasögusafns Íslands). Maður hennar, Jón Jacobson, var landsbókavörður um skeið og varð eitt af hans aðalverkefnum að flytja safnið haustið 1899 af Alþingishússloftinu á efri hæð og loft Landsbankahússins sem þá var nýbyggt (minning).

Ekki hefur tekist að finna neinar upplýsingar að ráði á rafrænu formi á netinu um húsið og íbúa þess frá fyrstu áratugum 20. aldar.

Núna er lóðin að Þingholtsstræti 34 sameinuð lóðunum Laufásvegi 21-23 og er í eigu Bandaríska sendiráðsins sem eignaðist húsið 1957. Það var í fyrstu svefnstaður öryggisvarða sendiráðsins en 1994 var því breytt í skrifstofuhúsnæði fyrir starfsfólk sendiráðsins (Uppl. af vef sendiráðsins 9. desember 2010).

Húsið í dagblöðum liðinna tíma

Upplýsingarnar hér á eftir eru engan veginn tæmandi en settar fram eftir bestu vitund. Allar leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar.

  • 1939: Stúlka óskast. Fáment heimili. Sérherbergi. Uppl. Þingholtsstræti 34. Sími 5434 (augl.)
  • 1941: Kaupum tómar krukkur og glös undan snyrtivörum vorum. Vera Simillon, Þingholtsstræti 34 (augl.)
  • 1941:  Vetrarsjöl . 2 falleg vetrarsjöl, tvílit, til  sölu og sýnis kl. 2-4 í dag í Þingholtsstræti 34 (augl.)
  • 1942:  Stúlka óskast á fámennt heimili. Lára Hannesdóttir, Þingholtsstræti 34. Sími 5231 (augl.)
  • 1944:  Hraustar stúlkur óskast i vist allan daginn. Sitt herbergið hvor. Gott kaup. Nánari uppl. Þingholtsstræti 34 (augl.)
  • 1947:  2 stúlkur óskast á heimili Odds Helgasonar, Þingholtsstræti 34. Sími 5434  (augl.)
  • 1953:  Bíl stolið. Í fyrrinótt var bílnum R.13, rauðum Buick, stolið úr opnum bílskúr á Þingholtsstræti 34 hér í bænum… (frétt)
  • 1956:  Plymouth smíðaður 1942 til sölu. – Hefur alltaf verið í einkaeign. í góðu standi. Verð og greiðsluskilmálar mjög hagkvæmir. Til sýnis í dag í Þingholtsstræti 34, eftir kl. 5 (augl.)
  • 1976:  Sendiráð Bandaríkjanna óskar eftir tilboði i málun á húseign Laufásveg 21-23 og Þingholtsstræti 34 innan og utanhúss… (augl.)
  • 1979:  Eru leyniþjónustur stórveldanna með útsendara hér á landi? … „Sendiráðið á hér fasteignir að Laufásvegi 21 og 23. Heildarrúmmetrafjöldi þessa húsnæðis er 3.923 ferm. Þessu til viðbótar eiga Bandarikjamenn lóðir að Þingholtsstræti 34 og 36 og er þvi lóðareign þeirra samtals 1.384 fermetra“  (frétt.)
  • 1984:  Frétt um loftnetsskerma sendiráða:.. „Jafnframt hefur verið settur upp loftnetsskermur á leiguhúsi sendiráðsins við Þingholtsstræti 34 án pess að leyfi væri fyrir uppsetningunni, samkvæmt upplýsingum skrifstofu byggingafulltrúa.“ (frétt)
  • 1984:  Ameríska sendiráðið hefur fengið samþykki fyrir því að byggja hlið úr stáli og timbri fyrir framan bílastæði við sendiráðið sem og fyrir að gera girðingu úr timbri ofan á steyptan vegg að Þingholtsstræti 34 (frétt)
  • 1985:  Skotið úr haglabyssu inn í íbúð: Skotið var úr haglabyssu inn um glugga á starfsmannabústað bandariska sendiráðsins að Þingholtsstræti 34 (frétt)
  • 1997:  Sendiráð Bandaríkjanna óskar eftir tilboðum í framkvæmdir vegna breytinga á húsnæði í Þingholtsstræti 34. Verkið felst í því að breyta 110 fm íbúðarhúsnæði í skrifstofur …  (augl.)
  • 2001: Ár 2001, miðvikudaginn 21. nóvember kl. 09:00, var haldinn 51. fundur skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur. Samþykkt að sameina lóðirnar að Laufásvegi 21-23 og Þingholtsstræti 34 (augl.)