Um Hannesarholt

Markmið sjálfseignarstofnunarinnar Hannesarholts er að efla jákvæða, gagnrýna hugsun í íslensku samfélagi, auka skilning á gildi sögunnar fyrir samtímann og framtíðina og hvetja til uppbyggilegrar umræðu og samveru.

Öllum ágóða af starfseminni verður varið til uppbyggingar stofnunarinnar.

Stofnendur

Hugmyndin að stofnun Hannesarholts er komin frá hjónunum Arnóri Víkingssyni og Ragnheiði Jónu Jónsdóttur en þau eru jafnframt eigendur Grundarstígs 10 ásamt fjórum börnum sínum.

Aðrir stofnendur Hannesarholts eru Salvör Jónsdóttir, Margrét Gunnarsdóttir, Stefán Örn Stefánsson, Grétar Markússon, Gunnar S. Ólafsson, Páll Skúlason og Viðar Víkingsson.

Ragnheiður Jóna Jónsdóttir, býður gesti velkomna í húsið og vonar að almenningur taki vel á móti faðmlagi fortíðar og njóti hins góða anda í húsinu.

„Draumurinn“

Þegar komið er inná fyrstu hæð Grundarstígs 10 er engu líkara en að húsið bjóði faðminn og ósjálfrátt hægir á hjartslættinum og maður slakar á. Okkur langar að bjóða almenningi að þiggja þetta faðmlag fortíðar með okkur, hægja á hlaupunum, líta til baka og reyna að muna hvaðan við erum að koma. Vonandi getur það hjálpað okkur til að átta okkur á hvert við erum að fara.

Njótum samvista
Allir eru vel að sér í torfbæjararfleifð okkar, en þetta er líka partur af sögu okkar, og mikilvægt að almenningur fái að njóta þess. Húsinu fylgir góður andi og það fylgir manni eftir að frá er horfið. Þarna langar okkur til að margt fólk fái notið margskonar samvista, sjálfu sér og öðrum til uppbyggingar. Menning er ekki bara hlutir sem einhver býr til, menning er líka allt það sem fólk gerir saman, í félagi hvert við annað. Í Hannesarholti langar okkur til að við getum saman hlúð að okkur sjálfum og menningu okkar í uppbyggjandi iðju og samveru. Baðstofan er horfin en við erum ennþá hér. Líklega er í þessum draumi okkar fólgin þrá eftir baðstofunni.

Upphaf borgarmenningar
Hannes Hafstein varð fyrsti ráðherra Íslands árið 1904. Fyrir þann tíma hafði íslenskt samfélag fyrst og fremst verið bændasamfélag, og má allt eins líta á árið 1904 sem fæðingarár borgarmenningar á Íslandi. Flestar stofnanir samfélagsins sem bera uppi samfélag dagsins í dag og börnin okkar taka sem gefinn hlut voru stofnsettar á árunum í kringum 1904. Margt hefur okkur gefist á þeim tíma, dýrmæti og gersemar, og ýmsu höfum við glatað. Ekki kannski til frambúðar, við bara munum ekki alveg hvar við létum það frá okkur.

Lítum til baka og byggjum upp
Í Hannesarholti vonumst við til að okkur gefist tóm til að líta til baka yfir vegferðina, velta við völum og endurheimta svo margt sem okkur var gefið og við höfum enn not fyrir. Við vörpuðum af okkur doðanum og íslenskt samfélag hefur geysað áfram með ógnarhraða á undanförnum áratugum. Nú er kannski kominn tíminn til að kasta mæðinni. Með hvatningarorð Hannesar Hafstein í brjósti stígum við af klárnum í Hannesarholti og lítum yfir það sem okkur yfirsást eða erum búin að gleyma, um leið og við byggjum okkur upp til framtíðar.

Ragnheiður Jóna Jónsdóttir