Heimsmarkmið fyrir hundrað árum?

Fáar þjóðir hafa náð jafn langt á jafn stuttum tíma eins og hin íslenska. Tuttugasta öldin var tími hraðskreiðra framafara. Þjóðin fluttist úr torfkofum í steinsteypt hús. Fólk átti í erfiðleikum að ferðast innanlands, en nú geta landsmenn farið í árlegt ferðalag til Tenerife.

Að mörgu leyti er nútímasamfélag okkar mun sjálfbærara en samfélagið 1920. Heilsa fólks er betri, jöfnuður meiri, hungursneyð er ekki til, flestir lifa við fjárhagsstöðugleika og svo mætti áfram telja. Það hefur ekki verið nauðsynlegt að hlúa að gildum eins og aðhald, nægjusemi, útsjónarsemi og ráðdeild í meira en hálfa öld. Afleiðingin er sú að hver íbúi á stórt kolefnisfótspor og framleiðir mikið af rusli sem ekki er hægt að endurvinna.

 

Í dag er þörfin til að huga að neyslu ekki sprottin úr fátækt heldur eru breyttar aðstæður í heiminum hvatinn til breytinga. Við erum þegar farin að finna fyrir afleiðingum þessarar ómeðvituðu neyslu, þær birtast okkur sem hækkandi hitastig, súrnun sjávar, breytt veðurfar og fréttir um örplast í fylgjum óléttra kvenna og svo mætti áfram telja.

Ef við lítum til baka og skoðum umbóta- og framfaraverk Hannesar Hafstein og heimastjórnarinnar sjáum við að margt af því sem þau tóku sér fyrir hendur hafði framsýni að aðal markmiði og mætti túlka sem aðgerðir til sjálfbærrar þróunar í anda Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Lífvænlegt land

„Því takmarkið sem vjer verðum að keppa að, það er í orði að gera landið sem lífvænlegast með því að hlúa að öllu, sem gerir fýsilegra að vera hér,“ sagði Hannes Hafstein í ræðu sinni þegar hann tók við embætti Íslandsráðherra. Hannes skorti ekki skapandi hugsjón, frumkvæði né hæfileika til að ryðja nýjar framkvæmdabrautir. Það er ekki að furða að fólksflutningar til vesturheims snöggminnkuðu þegar heimastjórnin tók við, en á sama tíma jukust fólksflutningar frá Evrópu.

Jafnrétti kynjanna

Eitt af fyrstu verkum Hannesar var að tryggja stúlkum rétt á skólagöngu í Lærða Skólalann, nokkrum áður síðar tryggði hann konum sama rétt og karlar til náms, námsstyrkja og embættisstarfa. Þegar Alþingi rýmkaði um kröfurnar um kosningarétt svo þurrabúðarmenn og kaupstaðaborgarar fengu kosningarétt, stendur í áliti Hannesar „að vísu er kosningarjetturinn ekki í sannleika almennur, nema konur hafi hann jafnt og karlar.“ Það er augljóst að kvennréttindi voru honum hugleikin, en konur 40 ára og eldri fengu kosningarétt 1915, og svo fullgild pólitísk rétttindi 1920.

Menntun fyrir öll

Menntamál voru Hannesi mikilvæg enda vissi hann að sjálfstæði þjóðarinnar myndi byggjast á háu menntunarstigi almennings. Hann tryggði konum aðgang að menntun, en Hannes mætli einnig fyrir stofnun Kennaraskóla Íslands 1907 og 1907 fengu öll börn fjögurra ára ókeypis skólagöngu með skólaskyldu, 1909 var stofnaður styrktarsjóður handa barnakennurum og 1911 lagði Hannes fram frumvarp sem leiddi til stofnunar Háskóla Íslands. Á heimastjórnartímabilinu voru einnig stofnaðir menntaskólar, bændaskólar, sjómannaskóli, iðnskólar, húsmæðraskólar og ungmennafélög.

Nýsköpun og uppbygging

Innviðir tóku stakkaskiptum á heimastjórnartímabilinu.  Vegir voru lítið annað en troðningar og ekki hæfir vögnum. Hannes var talinn eyðslusamur framfaramaður í samanburði við fyrri stjórn Dana, þar sem starf landsstjórans snérist um að spara sem mest fyrir krúnuna. Vegir voru lagðir frá Reykjavík og Sogið, Jökulsá í Axlarfirði og Brúará voru brúaðar. Hannes var stórhuga og vildi helst leggja járnbrautarteina austur frá Reykjavík, en þau áform voru talin of dýr.

Góð atvinna og hagvöxtur

Heimastjórnartímabilið markaði upphaf vélvæðingar skipaflotans og stofnun Eimskipafélagsins. Hannes sá til þess að fé væri lagt til hafnargerðar í Reykjavík, og að Alþingi myndi styrkja Eimskipafélagið um byggingu strandferðaskipa, til að auðvelda fólks- og vöruflutninga um landið. Hafnargerðin og störfin sem mynduðust í kringum útgerðirnar voru mikilvægt skref í átt að þéttbýlismyndun á Íslandi, sjálfstæði og þeirrar velmegunar sem við búum við í dag.  

Sjálfbærar borgir og samfélög

Fyrstu vísar að iðnaði tóku að spretta fram á þessum tíma. Stofnaðar voru ullarverskmiðjur í Mosfellsveit og Eyjafirði, einnig innlend klæðagerð, veiðarfæragerð, ölgerð, smjörlíkisgerð og sápugerð. Það var líka á þessum tíma sem fallvötn voru beisluð til að búa rafmagn, með lítilli virkjun í Hafnafirði 1907. „Fossalögin“ 1907 sem Hannes mælti fyrir tryggði að einungis þeir sem væru með íslenskt ríkisfang mættu eiga fossa og nýta þá.

Líf á landi

Eitt af hjartans málum Hannesar Hafstein voru landgræðslu- og skógræktarmálin. 1907 lagði Hannes fram „Frumvarp til laga um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands.“ Þessi lög voru byrjunin á Landgræðslunni og Skógræktinni. Í ræðu sini á þingi sagði Hannes ráðherra:

Þetta frumvarp má skoða sem nokkur skonar mælikvarða á framtíð þessa lands og viljann til að leggja nokkuð á sig fyrir þá, sem lifa eiga á ókomnum tímum. Það er ekki hægt að búast við því, að það fyrirtæki, sem hjer er um að ræða, gefi af sér neinn arð í dag eða á morgun. Hjer er farið fram á, að leggja á sig kostnað til þess að reyna gjöra landið betra, vistlegra, og fegurra fyrir börn vor og þeirra börn. Það byggist á þeirri ósk, að gróður landsins ekki einungis haldist við, heldur aukist og margfaldist á ókomnum árum, og það byggist á því trausti, að það, sem hefur verið, geti orðið aptur.