Það er auðvelt að afskrifa Heimsmarkmiðin sem óviðkomandi fyrir einstaklinga. „Hvernig á ég að sjá til þess að skólp sé hreinsað á fullnægjandi hátt áður en að því er dælt út í sjó?“ er réttmæt spurning, og augljóslega er það verkefni stjórnvalda. Viðfangsefni Heimsmarkmiðanna er að mörgu leyti „to-do listi“ fyrir stjórnvöld og alþjóðastofnanir. En það væri rangt að halda að þau komi okkur ekkert við eða að við getum lítið sem ekkert gert.

Hverjir eiga að taka sig á?

Hingað til hafa aðgerðirnar verið á verksviði yfirvalda og fyrirtækja. En einn stærsti liðurinn í samfélaginu hefur verið skilið útundan í þessum aðgerðum: heimilin. Öll erum við með heimili hvort sem við eigum okkar eigin íbúð eða hús, eða leigjum, hvort við búum einsömul, með fjölskyldu, með maka eða með vinum. Ákvarðanir okkar, lífnaðarhættir og gjörðir hafa áhrif á okkur, okkar nærumhverfi og heiminn allan.

Við sem neytendur höfum hins vegar mörg tæki til að láta gott af okkur leiða. Með því að hafa sjálfbærni í huga þegar við erum að versla inn, skemmta okkur, ferðast eða umgangast náungan getum við tekið skref í áttina að sjálfbærari heimi og þrautseigara samfélagi.

Hvernig eru heimsmarkmiðin flokkuð?

Heimsmarkmiðin 17 eru oft flokkuð í 3 flokka (sem eru þó hluti af órjúfanlegri heild) eða í 5 meginþemu. Flokkarnir 3 eða stoðir sjálfbærrar þróunnar eru efnahagsleg-, félagsleg-, eða umhverfis-markmið. Þemun eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Þemun og stoðirnar eru hluti af stærri heild og þannig getur velgengni í einu markmiði haft bæði góð eða neikvæð áhrif í öðru.

Það er ekki alltaf jafnauðvelt að átta sig á því hvaða markmið á við heimilin eða hvernig heimiln geta unnið að heimsmarkmiði. Það er auðséð að markmið 12: Ábyrg Neysla, er mikið til í okkar höndum sem neytendur. Með því að vera meðvituð um hvert peningarnir okkar fara, þá getum við haft jákvæð áhrif á öll hin markmiðin.

Neysla

Við verslum ekki einungis til að mæta grunnþörfum okkar heldur einnig til að auðga lífið og rækta sjálfið. Með ábyrgri neyslu getum við haft áhrif á félags-, umhverfis- og efnahagsmarkmiðin. Í hvert sinn sem við drögum upp kortið eða seðlaveskið erum við í pólítískum gjörningi þar sem peningurinn sem látum af hendi getur stutt við fyrirtæki sem borga ekki mannsæmandi laun, stunda óumhverfisvæna starfshætti, eða við getum stutt fyrirtæki sem tekur samfélagslega ábyrgð sína alvarlega og sér til þess að framleiðslan og starfshættirnir séu í samhljómi við hinar þrjár stoðir sjálfbærar þróunnar.

Hin Markmiðin       

Við þurfum ekki að takmarka okkur við einungis tólfta markmiðið um ábyrga neyslu. Þegar betur er að gáð og við athugum hin markmiðin kemur í ljós að það eru næg tækifæri til að leggja eitthvað að mörkum.

Leiðarvísir

Þegar markmiðin eru skoðuð þá er það ekki alltaf augljóst hvernig ein manneskja eða heimili getur haft áhrif. Áður en maður afskrifar markmiðin er gott að staldra við og spyrja sig nokkrar spurningar:

Allt skiptir máli.

Aðgerðirnar sem við kjósum að tileinka okkur þurfa hvorki að vera flóknar eða dýrar. Lítil aðgerð eins og að hætta að nota plast innkaupapoka getur skilað miklu ef samtakamátturinn er til staðar. Flestar breytingar út frá venjunum okkar geta valdið óþægindum fyrst en þegar smá tími er liðinn man maður varla hvernig lífið var áður.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun hafa það að leiðarljósi að gera auðlindirnar sem veita okkur svo mikil lífsgæði endurnýjanlegar, arðbærar og sjálfbærar. Þau snúast einnig um að þessi lífsgæði gætu orðið á færi sem flestra. Í dag eru neysla okkar og venjur ekki sjálfbærar, einhvern daginn verður ekki hægt að lifa eins og við höfum lifað eða það verður bara á færi hinna ofurríku. Sjálfbærni er fyrsta skrefið í átt að friðsælli og þrautseigari heimi.