Heimsmarkmiðin eru órjúfanleg heild

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru stundum túlkuð út frá þriggja þrepa stigveldi, þrátt fyrir að vera órjúfanleg heild. Umhverfismarkmiðin eru undirstaðan, félagslegu markmiðin eru í öðru þrepi og efst eru efnahagslegu markmiðin. Til dæmis árangur í markmiði 15 „líf á landi“ og markmiði 14 „líf í vatni“ (umhverfismarkmið) hefur gagnkvæm áhrif á markmið 2 „ekkert hungur,“ markmið 3 „heilsa og vellíðan,“ markmið 6 „hreint vatn og hreinlætisaðstaða,“ markmið 8 „góð atvinna og hagvöxtur,“ markmið 9 „nýsköpun og uppbygging,“ og markmið 13 „verndun jarðar.“ Svona mætti áfram telja fyrir hvert og eitt markmið.

Hvernig passa heimilin inní Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna?

Heimilin eru vettvangur möguleika til aðgerða í fjölmörgum Heimsmarkmiðum. Heimilin eru neytendur á mat, vörur, byggingarefni, eldsneyti, orku, vatn. Heimilin eru líka vinnustaður þar sem mikil vinna fer í uppeldi á börnum, þrif, matargerð og viðhaldi á húsnæði. Heimilin eru vettvangur heilsu og vellíðunar. Heimilin eru einingarnar sem mynda borgir og samfélög. Heimilin eru undirstaða aukins jöfnuðar, jafnréttis kynjanna og friðar og réttlætis.

Umhverfismarkmiðin

Grunnforsendurnar fyrir allt líf á jörðinni og undirstaðan fyrir allt sem kallast sjálfbær þróun eru umhverfismarkmiðin fjögur: Hreint vatn og hreinlætisaðstaða, Verndun jarðar, Líf í vatni og Líf á landi. Án árangurs í þeim þá er nánast útilokað að ná varanlegum árangri í félags- og efnahagsmarkmiðunum. Árangur í umhverfislegri sjálfbærni hefur jákvæð áhrif á öll hin markmiðin. Á Íslandi eru fjölmörg félagasamtök sem starfa á vettvangi umhverfismarkmiðanna.

ESA

Félagsleg sjálfbærni

Félagslegu markmiðin eru til þess hugsuð að gera hina „mannlegu auðlind“ endurnýjanlega og sjálfbæra. Í einstaklingsmiðuðu samfélagi eins og á Íslandi, gleymist oft að hlúa að manneskjunni og bjóða henni að vera virk í samfélaginu. Jaðarsettir hópar eiga í sérstökum erfiðleikum með inngildingu (e. Inclusion) í samfélaginu. Á Íslandi eru fjölmörg félagasamtök sem hafa lengi verið að vinna að einu eða fleirum heimsmarkmiðum.

B.S. Halpern (T. Hengl; D. Groll)

Efnahagsmarkmiðin

Efnahagsmarkmiðin leita leiða til að ná sjálfbærni á sviði atvinnu og hefðbundinnar verðmætasköpunar. Kraftur markaðarins getur verið beislaður til að bæta samfélagið og umhverfið með auknum jöfnuði, tækninýjungum og hagsæld fyrir sem felst. Tólfta markmiðið um ábyrga neyslu er flokkað meðal efnahagsmarkmiðanna, en jákvæð áhrif þessa markmiðs gætir í öllum þremum flokkum Heimsmarkmiðanna.

Staðan á Íslandi

1. Engin fátækt

Þrátt fyrir almenna velmegun í íslensku samfélagi er til fátækt hér á landi. Jaðarsettir hópar, lágtekjufólk, öryrkjar og innflytjendur eru í mestri hættu á að búa við fjárhagserfiðleika. Húsnæðismarkaðurinn og óstöðugleiki á leigumarkaði er einn helsti orsakavaldur fátæktar hér á landi.

Stærsti hópurinn sem leitar aðstoðar hjálparsamtaka er fólk sem reiðir sig á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og fólk á atvinnuleysis- eða örorkubótum. Ellilífeyrisþegar og láglaunafólk leitar einnig til hjálparsamtaka, en í minna mæli. Æ fleira fólk af erlendum uppruna neyðist til að framfleyta sér með fjárhagsaðstoð félagsþjónustunnar. (Skýrsla félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands)

2. Ekkert hungur

Hungursneyð er ekki lengur vandamál hér á landi, hins vegar er hópur fólks sem reiðir sig á matargjafir. Mæðrastyrksnefnd er með reglulegar matarúthlutanir á miðvikudögum, og Samhjálp gefur allt að 350 máltíðir á degi hverjum. Aftur á móti er offita, ofþyngd og ofát frekar vandamál þar sem íslendingar eru meðal feitustu þjóða heims: 58,5% þeirra 15 ára og eldri eru í ofþyngd. Matarsóun á Íslandi er einnig gríðarleg þar sem um það bil 160 kg af mat á hvern íbúa er hent á hverju ári.

3. Heilsa og vellíðan

Helsta áskorun íslendinga í markmiði 3 er að efla forvarnir og meðferð vegna misnoktunar vímuefna og áfengis. Hver íslendingur innbyrðir að jafnaði 7l af hreinum vínanda á hverju ári, og skorpulifur er vaxandi vandamál. Geðheilsa íslendinga virðist einnig vera bágborin og illa gengur að takast á við þunglyndi og kvíða. Umhverfisáhrif eru einnig vaxandi vandamál þegar kemur að heilsu þjóðarinnar. Talið er að rekja megi allt að 70 dauðsföll á ári vegna mengunar.

4. Menntun fyrir öll

Á Íslandi eiga allir rétt á menntun, hins vegar getur það reynst miserfitt að nálgast þessi tækifæri. Jaðarsettir hópar eiga ekki alltaf jafnan aðgang að tækifærum. Helstu áskoranirnar eru að efla læsi og skilning innflytjenda á íslenskri tungu, fjölgun nemenda í verk- og tækninámi, vinna gegn brotthvarfi úr menntaskólum. Einnig mun samfélagið auðgast á því að þekking og reynsla innflytjenda sé metin.

5. Jafnrétti kynjanna

Ísland og hin Norðurlöndin eru leiðandi í jafnrétti kynjanna á heimsvísu. Hins vegar eru ennþá vandamál í samfélaginu sem hindra framfarir í jafnrétti kynjanna. Kynbundið ofbeldi er viðvarandi vandamál sem hefur alvarlegar pólitískar, efnahags-, félags-, og heilsufarslegar afleiðingar. Einnig þarf að efla vitund um sameiginlega ábyrgð kynjanna á heimilinu. Enn eru konur í minnihluta í stjórnendastöðum þrátt fyrir að vera meirihluti háskólamenntaðra, og tryggja þarf þáttöku kvenna á öllum sviðum þjóðlífsins.

6. Hreint vatn og hreinlætisaðstaða

Ísland er þekkt fyrir óspillta náttúru, beljandi fallvötn og besta drykkjarvatn í heimi. Þetta ríkidæmi vatns hefur mögulega gert okkur að trössum þegar kemur að meðhöndlun vatns. Við förum ósparlega með vatnsauðlindina, og getum bætt okkur í hvernig við notum vatnið. Einnig er mest öllu skólpi dælt nánast óhreinsuðu út í hafið. Þrátt fyrir að eiga besta vatn í heimi, erum við í æ ríkara mæli að flytja inn vatn í formi drykkjarfanga og jafnvel klaka sem framleidd eru erlendis.

7. Sjálfbær orka

Ein helsta auðlind íslands er orkan sem náttúran færir okkur. Við framleiðum meiri orku en heimilin, fyrirtækin og minni-iðja þurfa, en 80% af orkunni fer til stóriðju. Bæði heimilin og stóriðjan geta bætt orkunýtinguna og flutningstapið í flutningskerfinu samsvarar einni Kröfluvirkjun.

8. Góð atvinna og hagvöxtur

Við á Íslandi höfum lifað við góðan hagvöxt og háar tekjur sem gerir landið eftirsóknarvert fyrir fólk í atvinnuleit. Á hinn bóginn er ungt fólk af erlendum uppruna líklegra til vera hvorki í námi né í vinnu, miðað við infædda og bæta þarf úrræði og stuðning fyrir þessa vannýttu auðlind. Helstu áskoranir Íslands samkvæmt forsætisráðuneytinu eru að draga úr langtíma atvinnuleysi, efla stuðningsúrræði fyrir fólk með skerta starfsgetu, auka framleiðni í sátt við umhverfi og samfélag og að fólk fái jöfn tækifæri og jöfn laun fyrir sömu vinnu.

9. Nýsköpun og uppbygging

Hraður vöxtur á ýmsum sviðum í Íslensku samfélagi hefur undirstrikað þörfina fyrir aukna fjárfestingu í uppbyggingu og viðhaldi á mikilvægum innviðum, eins og almenningssamgöngum, samgöngum og öllu sem viðkemur ferðaþjónustunni. Einnig er þörf á að efla vísindarannsóknir og hvetja til nýsköpunar í öllum atvinnugreinum.

10. Aukinn jöfnuður

Íslenskt samfélag hefur lengi verið talið umburðalynt og opið, mögulega vegna einsleitni þjóðarinnar. Í dag er íslenskt samfélag fjölbreyttara og fyrir vikið ríkara. Bakslagið birtist á samfélagsmiðlum og í kommentakerfum þar sem hatursorðræða og skortur á umburðarlyndi í garð minnihluta hópa er vaxandi vandamál. Taka þarf á þessu vandamáli með upplýstri, opinni og gagnrýnni umræðu. Jaðarsettir hópar eiga oft í erfiðleikum með að gerast fullgildir þátttakendur í samfélaginu og jafna þarf stöðu fólks óháð uppruna, þjóðerni, trú, lífsskoðun, fötlun, starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitund. Við erum of lítið samfélag til að eiga efni á að útskúfa fólk.

11. Sjálfbærar borgir og samfélög

Þrátt fyrir að Ísland sé meðal strjálbýlustu landa heims með um það bil 4 íbúa á hvern ferkílómeter þá búa langflestir eða 94% í þéttbýliskjörnum, þar af 63,6% af þjóðinni á höfuðborgarsvæðinu. Húsnæðisskortur og óstöðugleiki á leigumarkaði er eitt helsta vandamál í þéttbýli á Íslandi. Loftgæðin í þéttbýli geta verið slæm, sérstaklega vegna svifryks.

12. Ábyrg neysla

Íslendingar eru sérlega neyslufrek þjóð, til að mynda ef allir myndu neyta eins og Íslendingar þá myndum við þurfa 15,56 Jarðir. Vistspor og kolefnisspor íslendinga er gríðarlega stórt þrátt fyrir alla náttúrulegu orkuna. Það leynast mikil tækifæri í að minnka kolefnissporið okkar með því að vera meðvituð um neysluna okkar, hverju við hendum og hvað við endurnýtum. Ábyrg neysla og framleiðsla felur í sér sjálfbæra og skilvirka nýtingu náttúruauðlinda og orku, aðgang almennings að grunnþjónustu og grænum störfum sem leiðir að bættum lífsgæðum allra. Innleiðing markmiðsins hjálpar til við að draga úr efnahagslegum, umhverfislegum og félagslegum kostnaði í framtíðinni, styrkir samkeppnishæfni og dregur úr fátækt.

13. Verndun Jarðarinnar

Helsta áskorun heimsbyggðarinnar er að sporna gegn hamfarahlýnun jarðarinnar. Við vitum að vissar útblásturslofttegundir eru skaðlegar umhverfinu og flýta fyrir mögulega óafturkræfum breytingum á loftslaginu og veðrakerfum heimsins. Bíla-, skipa-, og flugvélafloti Íslands er stór þáttur í kolefnisútblæstri þjóðarinnar, en „útfluttur kolefnisútblástur“ í formi innfluttra vara er talsverður. Við getum minnkað þetta fótspor með meðvitaðri neyslu og umhverfisvænum samgöngum. Kolefnisbinding er einnig stór þáttur í að halda hlýnun jarðinnar innan viðráðanlegra marka, en gæta þarf þess að kolefnisbinding sé ekki á kostnað líffræðilegrar fjölbreytni, né að kolefnisbinding sé leyfi til að menga eins og áður.

14. Líf í vatni

Auðlindir hafsins hafa verið lyftistöng fyrir íslenskt samfélag í gegnum aldirnar. Það þarf að tryggja að mannkynið geti áfram notið auðlinda hafsins og að hafið verði aftur heilbrigt vistkerfi. Við þurfum að ganga úr skugga um að fiskveiðarnar séu sjálfbærar. Með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis getum við haft áhrif á sýrustig sjávar. Plastmengun er gríðarlegt vandamál í höfum heims. Við þurfum að draga úr plastnotkun og endurvinna og endurnýta eftir okkar bestu getu.

15. Líf á landi

Landnám Íslands og innflutningur á kvikfénaði til landsins hafði veruleg áhrif á vistkerfi og gróðurþekju landsins. Ósjálfbær beit og framræst land síðustu alda hefur gengið hart að íslenskri náttúru. Við þurfum að vinna að endurheimt landgæða, stöðva eyðingu vistkerfa og sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni. Einnig þurfum við að tryggja að landbúnaður, framleiðsla, ferðaþjónusta og almenn nýting landsins sé sjálfbær og fari vel með þessi verðmæti.

16. Friður og réttlæti

Ísland er talið vera eitt friðsælasta land heims. Þó eru mörg verkefni enn óunnin. Hvers kyns misnotkun, ofbeldi eða skipulögð glæpastarfsemi á ekki að þrífast í íslensku samfélagi.

17. Samvinna um markmiðin

Fæstar þjóðir í heiminum búa við eins góð kjör eins og sú íslenska. Sautjánda markmiðið snýst um að styðja aðrar þjóðir heims í þeirra þróunarvinnu, án þess að ganga of hart á auðlindir jarðarinnar. Einnig er markmið 17 hvatning fyrir okkur að sitja ekki á auðum höndum, heldur leggja hönd á plóg og rækta sjálfbærara og þrautseigara samfélag.