Cauda Collective og tónleikaröðin Eldblik

Cauda Collective er hópur skapandi tónlistarflytjenda sem leita út fyrir rammann í tónlistarflutningi sínum. Hlutverki flytjandans er ögrað; hann semur líka tónlist, útsetur, spinnur og vinnur þvert á miðla. Hópurinn leitar nýrra leiða til að túlka gamla tónlist í samtali við nútímann, gjarnan með hjálp annarra listforma. Cauda Collective hefur komið fram á Listahátíð í Reykjavík, Sígildum sunnudögum í Hörpu, Sumartónleikum í Skálholti, Aldrei fór ég suður á Ísafirði og Centre Pompadour í Frakklandi svo eitthvað sé nefnt. Í starfi Cauda Collective er lögð áhersla á að vinna náið með tónskáldum og hefur hópurinn frumutt fjölda nýrra tónverka. Hópurinn vinnur einnig í samsköpun nýjar útsetningar á ýmis konar tónlist sem ekki tilheyrir klassískri tónlist, má þar nefna samstarfsverkefni með Mugison á 10 ára afmæli Haglél og hljómplötuna Adest Festum sem kom út árið 2021 og inniheldur nýja nálgun Cauda Collective á einu elsta nótnahandriti Íslands, Þorlákstíðum. Cauda Collective hefur hlotið fjölda viðurkenninga og styrkja, m.a. úr Starfslaunasjóði listamanna, Tónlistarsjóði og Styrktarsjóði SUT og RH. Cauda Collective hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2021 í flokknum flytjandi ársins, hópar: sígild og samtímatónlist, og platan Adest Festum hlaut tilnefningu fyrir bestu plötu í flokki þjóðlagatónlistar.

ELDBLIK – tónleikaröð Cauda Collective í Hannesarholti

Spegill, spegill
Hannesarholti, 27. september 2024 kl. 20:15
Cauda Collective hefur tónleikaröð sína í Hannesarholti með verkum eftir þær Eygló Höskuldsdóttur Viborg (f. 1989) og Jesse Montgomery (f. 1981). Leiknir verða strengjakvartettar og dúettar fyrir sópran og selló eftir bæði tónskáldin, sem eiga það sameiginlegt að hafa stundað nám í New York. Verk Eyglóar Silfra og Kona lítur við einkennast af áferðarfögrum strófum þar sem flaututónar strengjahljóðfæra eru notaðir á frumlegan hátt. Verk Jesse, Loisaida, My Love og Break Away, einkennast af leikglöðum en kraftmiklum laglínum sem oft eru unnar upp úr spuna.

Strengjafjölskyldan
Hannesarholti, 17. nóvember 2024 kl. 11:00
Á þessum fjölskyldutónleikum fá ungir tónleikagestir að kynnast hljóðfærum strengjafjölskyldunnar í gegnum skemmtilegar sögur og tónlist frá ýmsum tímabilum. Í lok tónleikanna er hægt að skoða hljóðfærin í návígi, spyrja spurninga og prófa að spila! Hentar börnum á leikskólaaldri.

Franskur febrúar
Hannesarholti, 7. febrúar 2025 kl. 20:15
Frönsk impressjónísk kammerveisla! Flutt verða þrjú af eftirlætis tónverkum Caudu Collective eftir Maurice Ravel (1875-1937): Strengjakvartett í F-dúr, Söngvar frá Madagaskar og Pavane fyrir látna prinsessu. Þá verður flutt Næturljóð eftir Lili Boulanger (1893-1918) sem varð árið 1913 fyrst kvenna til að hreppa hin virtu tónsmíðaverðlaun Prix de Rome.

FLXS
Hannesarholti, 25. apríl 2025 kl. 20:15
Innblásin af Fluxus hreyfingunni heldur Cauda Collective gjörningaviðburð þar sem flutt verða ýmis tónverk, ný og gömul, sem öll eiga það sameiginlegt að vera samin fyrir flytjendur án hljóðfæra. Á dagskrá eru m.a. verk eftir Louis d’Heudières (f. 1988), Jennifer Walshe (f. 1974) og Meredith Monk (f. 1942), auk þess sem Pétur Eggertsson (f. 1985) semur verk sérstaklega fyrir Cauda Collective. Pétur er annar helmingur teknófiðludúósins GEIGEN, tónskáld og listamaður sem leggur sérstaka áherslu á þátttöku áhorfenda í verkum sínum.

Eldmóðir
Hannesarholti, 16. maí 2025 kl. 20:15
Cauda Collective kannar ýmsar birtingarmyndir mæðra í kammermúsík. Verkin sem verða flutt eru Parasite fyrir sópran og víólu eftir Sóleyju Stefánsdóttur (f. 1986), …og í augunum blik minningana eftir Svein Lúðvík Björnsson (f. 1962), sem fjallar um móður Sveins sem var klettur í lífi margra sem leituðu til hennar; Verklärte Nacht eftir Arnold Schönberg (1874-1951) sem er byggt á ljóði þar sem kona segir ástmanni sínum að hún sé ólétt eftir annan mann, og INNI eftir Þuríði Jónsdóttur (f. 1967) sem byggt er á upptökum af nýbura að nærast hjá móður sinni.