Hleð Viðburðir

Í tilefni alþjóðlega jazzdagsins 30. apríl næstkomandi býður Move, hljómsveit Óskars Guðjónssonar, til hátíðar í Hannesarholti. Hljómsveitina skipa auk Óskars Eyþór Gunnarsson píanisti, Matthías Hemstock trommuleikari og Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson kontrabassaleikari.

Hvað rekur saxófónleikara áfram í því að vilja hittast helst tvisvar í viku með vinum sínum og æfa og æfa og æfa og æfa? Endursemja lögin aðeins og æfa síðan meira?

„Undanfarin sjö ár hefur Move verið að vinna að einhverju sem við vitum ekki alveg hvað er en allir finnum við að okkur langar að vinna að sameiginlegu markmiði. Hvert það markmið er nákvæmlega hefur vafist fyrir kvartettinum. Okkur langar að dvelja áreynslulaust inni í heimi tónsmíðanna og í þeim frjálsa heimi sem skapast með spuna en líka helst að öll lög eigi sér nýjan heim á hverjum degi og að hver sá hinn frjálsi spuni eigi sér nýtt lag á degi hverjum.

Sjö árum eftir stofnun hljómsveitarinnar eða nánar tiltekið 14. febrúar sl. urðu kaflaskil í samleik okkar. Þar náðum við að sleppa tökunum á því sem við kunnum og hefja leit að því sem við kunnum ekki í sameiningu. Til þess hefur þurft hundruði ef ekki næstum þúsund klukkustundir í samveru bæði við leik og störf. Sú samvera hefur verið nauðsynleg til þess að kanna allt sem við viljum kunna, leita að því sem við vissum ekki að við vildum kunna og kanna hvað dregur fram hið ýtrasta í fari hvors annars. Þrýstirpróf á sér stað því ekki er nóg að æfa og spila saman. Stóra kennslustundin hefur verið samhlustun á æfingar og tónleika til þess að finna hvert ferðalagið tekur mann án hljóðfæris.

Óheft frelsi í eigin túlkun eykst eftir því sem traust vináttuböndin þéttast við samveru og skilning á þörfum hvers og eins. Það skemmtilegasta í ferðalaginu er eftirvæntingin fyrir næstu sjö árum af því sem virðist það sama, er alltaf nýtt ef leitað er.” – Óskar Guðjónsson, mars 2024

Tónleikarnir hefjast kl 20 og miðaverð er 5.900 kr.