Phantasmagoria
06/01/2018 @ 17:00
| kr.3000Ragnar Jónsson sellóleikari, Hulda Jónsdóttir fiðluleikari og Mathias Halvorsen píanóleikari flytja píanótríó í A-dúr eftir Maurice Ravel, Phantasmagoria eftir Bent Sørensen og fiðlusónata nr. 4 eftir Charles Ives.
Systkinin Hulda og Ragnar hafa leikið saman alla ævi og gengur sífellt betur að vinna saman eftir sem þau eldast og þroskast. Ragnar nam sellóleik hér heima hjá Gunnari Kvaran og Sigurgeiri Agnarssyni og utan í Kaupmannahöfn og París. Hann hefur m.a. verið viðtakandi minningarverðlauna Raphael Sommer 2014 og styrks úr tónlistarsjóði Valitor 2016. Sama ár lék hann sellókonsert Edwards Elgar með Sinfóníuhljómsveit Íslands eftir að hafa farið með sigur úr býtum í einleikarakeppninni Ungir Einleikarar.
Eftir að hafa lokið Diplómaprófi frá Listaháskóla Íslands vorið 2009 hélt Hulda til New York þar sem hún lauk Master of Music gráðu vorið 2015, síðan þá hefur Hulda verið búsett í Þýskalandi. Veturinn 2017-18 leikur hún með kammersveitinni Ensemble Resonanz sem eru staðarlistamenn í nýja Elbphilharmonie tónleikahúsinu í Hamburg. Auk þess leikur hún reglulega kammertónlist, er meðlimur í strengjakvintettinum Wooden Elephant og starfar sem aukamaður með ýmsum sinfóníuhljómsveitum í Evrópu.
Mathias er uppalinn í Noregi og nam í Osló og Leipzig og kemur reglulega fram sem einleikari og kammertónlistarmaður út um allan heim. Mathias tekur þátt í og skipuleggur ýmis fjölbreytt verkefni, sem dæmi má nefna kammertónlistarhátíðina PODIUMfestivalen í Haugesund sem hann hefur staðið að frá árinu 2008, tónleika í niðamyrkri undir yfirksriftinni Lights Out, einnig lék hann með söngkonunni Peaches í sýningu hennar nefndri Peaches Christ Superstar.