STYRKTARTÓNLEIKAR – GUNNAR KVARAN OG HAUKUR GUÐLAUGSSON
03/10/2018 @ 20:00 - 21:00
Gunnar Kvaran sellóleikari og Haukur Guðlaugsson orgelleikari, hollvinir Hannesarholts, halda styrktartónleika í Hljóðbergi Hannesarholts miðvikudaginn 3.október kl.20. Þeir félagar gefa vinnu sína og afrakstur miðasölu rennur alfarið til starfsemi Hannesarholts sjálfseignarstofnunar. Báðir eru þeir margverðlaunaðir tónlistarmenn sem hafa helgað líf sitt listagyðjunni. Hannesarholt kann þeim alúðarþakkir fyrir stuðninginn.
Efnisskrá: J. S. Bach : Svíta nr. 2 í í d- moll BWV 1008 Prélude Allemande Courante Sarabande Menuet I Menuet II Gigue
Bach – Gounod: Ave María
F. Chopin: Largo úr sónötu Op. 65 fyrir selló og piano
J. S.Bach: Svíta nr. 1 í G-dúr BWV 1007 Prélude Allemande Courante Sarabande Menuet I Menuet II Gigue
F. Schubert: Litanei
C. Saint-Saëns: Svanurinn
Gunnar Kvaran er fæddur í Reykjavík árið 1944. Hann hóf tónlistarnám í Barnamúsíkskólanum þar sem kennari hans var Dr. Heinz Edelstein. Síðar stundaði hann nám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Einari Vigfússyni og við Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn þar sem kennari hans var prófessor Erling Blöndal Bengtsson. Framhaldsnám stundaði hann hjá prófessor Reine Flachot í Basel. Gunnar Kvaran kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík í þrjátíu og fimm ár. Hann var ráðinn prófessor við tónlistardeild Listaháskóla Íslands haustið 2005 og lét af því starfi árið 2012.
Hann hefur stundað, auk fastra starfa, umfangsmikið tónleikahald bæði heima og erlendis. Hann hefur haldið einleiks og kammertónleika í mörgum Evrópulöndum, auk Bandaríkjanna og Kanada og m.a. komið fram í Wigmore Hall í London, Carnegie Hall í New York, í Beethoven Haus í Bonn og Mendelsohn Haus í Leipzig. Hann er meðlimur í kammerhópnum Tríó Reykjavíkur.
Gunnar hefur margsinnis leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, komið fram í útvarpi og sjónvarpi og allmargar hljómplötur og hljómdiskar hafa verið gefnir út með leik hans. Hann hlaut verðlaun úr sjóði Dr.Gunnars Thoroddsens árið 1990 fyrir tónlistarstörf og var valinn bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 1996. Mörg undanfarin sumur hefur hann verið gestur á hinum ýmsu tónlistarhátíðum í Bandaríkjunum. Sumurin 1999 og 2000 var honum einnig boðið að kenna og leika á tónlistarhátíð í Grikklandi. Í desember 2001 var honum boðið að koma fram ásamt Hauki Guðlaugssyni organista á sérstökum hátíðartónleikun í Vendrell á Spáni, fæðingarbæ Pablo Casals. Þann dag voru 125 ár liðin frá fæðingu meistarans. Gunnar var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu í júní 2006.
Haukur Guðlaugsson er fæddur á Eyrarbakka 5.apríl 1931. Hann hóf píanónám 13 ára og lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1951 undir handleiðslu Árna Kristjánssonar. Hann stundaði orgelnám við Staatliche Hochschule für Musik í Hamborg 1955-60 og var aðalkennari hans þar prófessor Martin Günther Förstermann. Framhaldsnám í organleik stundaði hann við Accademia di Santa Cecilia í Róm hjá Maestro Fernando Germani 1966, 1968 og 1972. Haukur var tónlistarkennari og kórstjóri Karlakórsins Vísis á Siglufirði 1951-55 og skólastjóri Tónlistarskólans á Akranesi 1960-74. Þá var hann einnig organisti og kórstjóri Akraneskirkju 1960-82 og kórstjóri Karlakórsins Svana. Hann var Söngmálastjóri íslensku þjóðkirkjunnar 1974-2001. Þá stóð hann fyrir organista-og kóranámskeiðum á hinu forna biskupssetri í Skálholti í 27 ár. Á starfsferli sínum stóð hann m.a. fyrir útgáfu um 70 bóka og hefta fyrir kóra og organista. Hann hefur haldið orgeltónleika víða á Íslandi, í Evrópu og Bandaríkjunum og leikið einleik á orgel með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Einnig hafa kórar undir hans stjórn haldið tónleika á Íslandi og víða í Evrópu og í Ísrael og gert upptökur fyrir útvarp, sjónvarp og geisladiska.
Þá hefur hann leikið á píanó í samleik á tónleikum, bæði með sellói, fiðlu og ýmsum blásturshljóðfærum og einnig með söngvurum, á Íslandi og í Evrópu. Haukur og Gunnar Kvaran hafa spilað mikið saman, m.a. á eftirminnilegum minningartónleikum á 125 ára fæðingarafmæli Pablo Casals árið 2001, í fæðingarbæ hans Vendrell í Katalóníu. Grímhildur Bragadóttir, eiginkona Hauks, hefur einmitt þýtt ævisögu Casals á íslensku.
Haukur hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann er heiðursfélagi bæði í Félagi íslenskra organleikara og í Félagi íslenskra tónlistarmanna. Árið 1983 var hann sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og árið 2008 hlaut hann Liljuna, sérstök tónlistarverðlaun íslensku kirkjunnar.
Veitingastofur Hannesarholts eru opnar frá kl.18.30 og er kvöldverðarseðill í boði. Borðapantanir í síma 511-1904 eða á hannesarholt@hannesarholt.is.