ÞEGAR ORÐA ER VANT
03/11/2018 @ 16:00 - 18:30
Erótík, óendurgoldin ást og rómantískur dauði, japönsk tónlistarhefð, undurfögur orðlaus ljóð, grískur harmsöngur.
Duo Zweisam, Katrin Szamatulski og Þóra Kristín Gunnarsdóttir, flytja verk fyrir flautu og píanó sem öll tengjast ljóðum og söng.
Á dagskrá eru verk frá þremur löndum og þremur öldum, stórverk flautubókmenntanna og minna þekktir gullmolar.
EFNISSKRÁ
Claude Debussy: Chansons de Bilitis (útsetning: Karl Lenski)
Franz Schubert: Tilbrigði fyrir flautu og píanó, Trockne Blumen D802
Toshio Hosokawa: Lied
Felix Mendelssohn: Þrjú Ljóð án orða fyrir flautu og píanó (útsetning: Wilhelm Barge)
André Jolivet: Chant de Linos
UM FLYTJENDUR
Katrin Szamatulski flautuleikari lærði hjá Rolf Bissinger í Frankfurt am Main, Benoît Fromanger í Berlin og Pirmin Grehl í Luzern. Í Luzern lauk hún mastersgráðum í hljómsveitarleik og tónlistarkennslufræði. Hún hefur tekið þátt í Darmstädter Ferienkursen für Neue Musik, Impuls Akademie í Graz, Ensemble Akademie hjá Ensemble Recherche í Freiburg og Klangspuren Internationalen Ensemble Modern Akademie í Schwaz. Hún hefur unnið með þekktum tónskáldum, svo sem Beat Furrer, Bernhard Lang, Chaya Czernowin, Sofia Gubaidulina og Simon Steen-Andersen, m.a. í tengslum við Lucerne Festival.
Hún leikur reglubundið með ýmsum kammerhópum og er meðal stofnenda samtímatónlistarhópsins Lunaire og kammersveitarinnar O!contraire. Katrin hefur komið fram sem einleikari með ýmsum hljómsveitum í Sviss, Austurríki og Þýskalandi. Samhliða tónlistarflutningi sínum starfar hún við rannsóknir í tónlist við háskólann í Luzern. Auk þess vinnur hún að miðlun samtímatónlistar í tónlistarkennslu. Starfsárið 2017-2018 er hún styrkþegi Internationale Ensemble Modern Akademie.
Þóra Kristín Gunnarsdóttir hóf tónlistarnám sitt hjá Dýrleifu Bjarnadóttur á Akureyri og lærði síðar hjá Peter Máté í Reykjavík. Árið 2011 fluttist Þóra til Sviss til að stunda frekara tónlistarnám. Hún lauk mastersgráðu í píanókennslu og píanóleik með samspil sem aukagrein frá háskólanum í Luzern í janúar 2017. Kennari hennar í Luzern var Yvonne Lang en hún sótti einnig reglulega kammertíma hjá m.a. Christian Poltéra, Isabel Charisius, Igor Karsko og Edward Rushton. Haustið 2017 hóf hún nám í samspili og meðleik við listaháskólann í Zürich, þar sem aðalkennari hennar er píanóleikarinn Friedemann Rieger. Þóra hefur tvisvar hlotið styrk úr styrktarsjóði Birgis Einarsonar, 2014 og 2017, og styrk frá KEA árið 2011. Auk námsins í Sviss hefur hún sótt Masterclassnámskeið í einleik, ljóðaundirleik og kammertónlist. Samhliða náminu sinnir Þóra píanókennslu og kemur fram á tónleikum með söngvurum og hljóðfæraleikurum.