Hannesarholt opnar á ný

Menningarsetrið Hannesarholt á Grundarstíg 10 í Reykjavík verður opnað aftur laugardaginn 1.október, eftir að hafa verið lokað í rúmt ár. Sjálfseignastofnunin hóf starfsemi árið 2012 og hefur reksturinn verið fjármagnaður af stofnendum Hannesarholts, Ragnheiði Jónu Jónsdóttur og Arnóri Víkingssyni, með stuðningi hollvina og hollustu einstaklinga, fyrirtækja, lista- og fræðimanna. Stofnunin hefur aldrei notið opinberra rekstrarstyrkja. Stefnt var að því að tryggja reksturinn til framtíðar með samstarfssamningi við stjórnvöld og hafa viðræður þess efnis staðið yfir í hátt í tvö ár, en ekki gengið eftir. Nú hefur opnunarstyrkur frá Anna-Maria & Stephen Kellen góðgerðarsjóðsins frá New York gert Hannesarholti kleift að halda rekstri hússins áfram. „Við erum sjóðnum og stjórnarformanni hans, Caroline Kellen, ævarandi þakklát, en Caroline er góðvinur Hannesarholts og sýnir í nú verki áhuga og skilning á hugsjónastarfi Hannesarholts,“ segir Ragnheiður.

Með stuðningi Anna-Maria & Stephen Kellen góðgerðarsjóðsins getur Hannesarholt opnað aftur en áfram verður leitað eftir fjárhagslegum stuðningi hér innanlands til að menningarstarfsemi nái aftur að blómstra í Hannesarholti með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.

Friðrik V. í Hannesarholti

Matreiðslumaðurinn Friðrik V.Hraunfjörð, betur þekktur sem Friðrik fimmti, hefur tekið við veitingarekstri í Hannesarholti og opnar veitingastað í húsinu 1.október. „Við höfum haldið upp á Friðrik og hans fólk síðan hann var með veitingastað á Laugavegi og áttum langar samræður um sjálfbærni og hráefni úr nærumhverfi. Það er sönn ánægja að fá Friðrik til samstarfs í Hannesarholti, segir Ragnheiður. „Við erum algjörlega á sömu blaðsíðu og það gengur vel að stilla saman strengi innanhúss,” segir Arnheiður Vala Magnúsdóttir rekstrarstjóri.

„Ég er ánægður að vera kominn af stað aftur og eins og áður í sögufrægu húsi, sem er ekki bara fallegt heldur líka fullt af sál. Ég hef fylgst með Hannesarholti í gegnum tíðina og þau með mér,” segir Friðrik. „Við eigum vel saman.”

Aðgengi fyrir fatlaða var nýlega stórbætt, þegar sett var upp pallalyfta við aðalinngang hússins og bætist við þá sem fyrir var í Hljóðbergi, tónleika-og fyrirlestrarsal í bakgarði.

Myndlistarsýning Þórunnar Elísabetar prýðir veitingastofurnar og minnir á að „Himneskt er að lifa,“ sem aftur bendir á H e a l.

Nánari uppýsingar er að finna á Hannesarholt.is