16. – 22. nóvember
Þórunn Sigurðardóttir segir gestum frá nýútkominni bók sinni „Heiður og huggun. Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. Öld“ á þriðjudagskvöld kl. 20.00. Í bókinni er fjallað um eðli og einkenni þessara bókmenntagreina, úr hverju þær eru sprottnar og hvert hlutverk þeirra var í samfélagi 17. aldar. Miðasala fer fram á midi.is.
Á miðvikudagskvöld leiðir Vilborg Davíðsdóttir kvöldstund undir yfirskriftinni „Ástin, drekinn og Auður djúðúðga“. Vilborg mun segja gestum, í máli og myndum, frá sjálfri sér, skrifum sínum um Auði og einnig nýjustu bók sinni sem kom út í vor; „Ástin, drekinn og dauðinn“ Þar fjallar hún um vegferð sína og manns síns með sjúkdómnum sem þau vissu myndi draga hann til dauða og deilir með lesendum því sem sorgin hefur kennt henni. Færri komust að en vildu þegar Vilborg heimsótti okkur í vor og því hvetjum við áhugasama til að tryggja sér fyrirfram á midi.is.
Fimmtudagurinn 19. Nóvember er UNESCO dagur heimspekinnar. Haldinn verður fögnuður í tilefni útkomu síðustu bókar Páls Skúlasonar, „Merking og tilgangur“, sem hann lauk við skömmu fyrir andlát sitt í vor. Aðgangur er ókeypis svo lengi sem húsrúm leyfir.
Á undan öllum kvöldviðburðum opna veitingastofurnar kl. 18.30 þar sem gestum gefst kostur á að gæða sér á menningarplatta áður en dagskrá hefst. Menningarplattann þarf að panta fyrirfram með borðapöntun í síma 511 1904 eða á hannesarholt@hannesarholt.is í síðasta lagi kl. 16.00 daginn fyrir,
Á sunnudag kl. 15.00 stýra Kristín Valsdóttir og Ragnheiður Haraldsdóttir, nikkussytur og tónmenntakennarar samsöng og spila með á harmonikku og píanó. Textar birtast á skjá og allir taka undir. Miðasala fer fram á midi.is. Veitingastofurnar eru opnar fyrir og eftir söngstundina.
Rúsínan í pulsuendanum þessa vikuna er Dagstund með gestum á sunnudag kl. 17.00 þar sem Guðrún Tómasdóttir deilir af andlegri auðlegð sinni og minningasjóði með gestum í spjalli við Bjarka Bjarnason kennara. Sigrún Hjálmtýsdóttir syngur dúetta með Guðrúnu og hjónin Anna Guðný Guðmundsdóttir og Sigurður Ingvi Snorrason leika með á flygil og klarínett. Miðasala á midi.is