Bókaspjall – Undur Mývatns
30/10/2017 @ 20:00
| kr.1500Árni Einarsson líffræðingur og Unnur Jökulsdóttir rithöfundur segja frá undraheimum Mývatns og Mývatnssveitar í orðum og myndum mánudagskvöldið 30. október kl. 20.00
Árni hefur rannsakað lífríki Mývatns hátt í hálfa öld við störf sín í Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn. Lífríki Mývatns er stórkostlega fjölbreytt og mannfólkið hefur um aldir nýtt sér þau hlunnindi sem búseta við vatnið býður upp á. En í seinni tíð hefur samspil manns og náttúru ekki verið lífríkinu í vil – það á undir högg að sækja.
Unnur les úr bókinni Undur Mývatns sem kom út fyrr á árinu hjá Forlaginu. Í bókinni útskýrir Unnur hvernig stórbrotið landslagið varð til, tekur þátt í fuglatalningu, segir frá æsilegu lífhlaupi húsandarinnar, vitjar um varpið og veiðir gjáarlontur með heimafólki, rýnir í mýflugnasverma og örsmáar vatnaverur, minnist kúluskítsins sem áður einkenndi vatnsbotninn og segir frá silungsveiðinni. Árni mun skyggnast um í lífkeðjum vatnsins.
Súpa og heimabakað brauð á undan fyrir þá sem það vilja í veitingastofunum frá kl.18.30. Borðapantanir í síma 511-1904.