SYNGJUM SAMAN Í HANNESARHOLTI MEÐ SIGTRYGGI BALDURSSYNI
09/05/2021 @ 14:00 - 15:00
Hannesarholt hefur hlúð að söngarfi þjóðarinnar frá stofnun fyrir átta árum, með fjöldasöngstundum annan hvert sunnudag. Textar á tjaldi og allir taka undir. Frítt fyrir börn í fylgd með fullorðnum sem greiða 1000 króna aðgangseyri. Sunnudagsins 9.apríl er stjórnað af engum öðrum en Sigtryggi Baldurssyni, sem margir þekkja undir heitinu Bogomil Font. Harpa Þorvaldsdóttir tónmenntakennari og tónlistarkona leikur með á píanó.
Sigtryggur Baldursson hefur komið víða við í tónlistarlífinu, hóf feril sinn sem trommuleikari á níunda áratug síðustu aldar með hljómsveitum sem báru nöfn eins og Þeyr, Kukl og síðast en ekki síst, Sykurmolarnir sem náðu að ferðast víðar með sína tónlist um heiminn en tíðkast hafði fram til þess, og ekki var það til trafala að þar söng ung kona að nafni Björk, sem átti eftir að setja mark sitt duglega í tónlistarsöguna. En árið 1992 þegar Sykurmolarnir voru bráðnaðir setti Sigtryggur saman óvenjulegan hóp manna sem hóf að leika tónlist sem var nánast polar andstæða þess sem hann hafði fengist við áður, en hljómveitin bar það óvenjulega nafn, Bógómíl og Milljónamæringarnir. Þóttust ýmsir ráða í að þar væri nú ekki allt með fyllstu alvöru, enda var hann þar með að búa sér til aukasjálf sem var krúner af gamla skólanum og var farinn að fást við dægurtónlist sem foreldrar hans og foreldrar þeirra jafnvel, höfðu alist upp við. Má segja að þetta hafi verið nokkurs konar fornleifa-tónlistarnám hans en rannsóknarvinnan varð aðeins vinsælli meðal almennings á Íslandi en hann hafði órað fyrir og sló Bogomil í gegn árið 1993 með laginu um Marsbúana glaðbeittu af diskinum “ekki þessi leiðindi” sem var einn af metsöludiskum þess árs.Síðan þá hefur Bogomil gefið út nokkra diska og haldið áfram að skoða tónlist fyrri ára, unnið mikið með Tómasi R. Einarssyni og stórsveit Reykjavikur svo einhverjir séu nefndir, en Sigtryggur hefur og haldið áfram að vinna sem trommuleikari og gefið út nokkra diska með mismunandi verkefnum, bæði eigin tónsmíðar og leikið fyrir aðra. Þar má nefna tónlistarverkefni eins og Steintryggur, Parabólur og svo tónlistarfólk eins og Emilíönu Torrini og Pétur Ben. Hann hefur einnig samið tónlist fyrir kvikmyndir og þætti, ásamt leikhúsverkum.
Frá árinu 2012 hefur Sigtryggur hins vegar unnið sleitulaust að framgangi íslenskrar tónlistar á alþjóðavettvangi undir merkjum ÚTÓN, útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, sem hann stýrir. Hann tekur lagið reglulega, bæði opinberlega, en líka með vinum og kunningjum. Gestum býðst að taka þátt í stundinni í Hannesarholti, en einnig verður streymt frá söngnum á fésbókarsíðu Hannesarholts. Sigtryggur fer á flug vítt og breitt um dægurtónlistarsöguna, svo engum ætti að leiðast!
Veitingastofur Hannesarholts eru opnar frá 11:30-17 alla daga nema mánudaga og helgardögurður er framfreiddur til kl.14.30. Borðapantanir í síma 511-1904 og á hannesarholts@hannesarholts.is