Tónleikar – Anna Sigga og Gerrit Schuil: Maístjarnan og önnur ljóð
12/11/2017 @ 17:00 - 18:20
| kr.2500Anna Sigríður Helgadóttir er fædd í Reykjavík árið 1963. Hún stundaði söngnám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Söngskólann í Reykjavík, þaðan sem hún lauk námi við framhaldsdeild árið 1989. Næstu þrjú árin sótti hún einkatíma hjá Prof. Rina Malatrasi á Ítalíu. Hún hefur sungið með fjölda kóra og tekið þátt í margskonar tónlistarflutningi, s.s. einsöngstónleikum, djasstónleikum, óperu- og óperettuuppfærslum, kirkjutónleikum, gospeltónleikum o.fl., á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð, á Ítalíu og í Bandaríkjunum. Árið 2000 söng hún hlutverk Biöncu í uppfærslu Íslensku Óperunnar á óperunni “The rape of Lucretia” eftir Benjamin Britten og árið 2002 söng hún hlutverk Mary í uppfærslu Listahátíðar á óperunni “Hollendingurinn fljúgandi” eftir Richard Wagner. Frá 2001 til 2012 starfaði Anna Sigríður sem tónlistarstjóri við Fríkirkjuna í Reykjavík, þar sem hún söng við athafnir, stjórnaði kór og hafði umsjón með tónlistarlífinu í kirkjunni. Hún söng í mörg ár með sönghópnum Hljómeyki og er ein af sönghópnum Emil og Anna Sigga og Bjargræðiskvartettsins. Að auki hefur hún starfað sem söngkona og sungið víða s.s. við kirkjuathafnir, tónleika og margs konar uppákomur.
Gerrit Schuil er fæddur í Hollandi. Hann nam við Tónlistarháskólann í Rotterdam og síðar í London og París. Árið 1978 tók Gerrit þátt í alþjóðlegu námskeiði fyrir hljómsveitarstjóra hjá rússneska hljómsveitarstjóranum Kirill Kondrashin og naut þess heiðurs að vera eini nemandi hans síðustu ár hans.
Gerrit hefur leikið á tónleikum víða um Evrópu, Bandaríkin og í Asíu, tekið þátt í hátíðum og unnið með fjölda söngvara og hljóðfæraleikara. Hann hefur einnig stjórnað mörgum evrópskum og amerískum hljómsveitum bæði á tónleikum og í óperuuppfærslum, m.a. hljómsveitum hollenska útvarpsins sem voru einnig hljómsveitir hollensku ríkisóperunnar.
Frá 1992 hefur Gerrit búið á Íslandi og verið leiðandi í tónlistarlífi þjóðarinnar bæði sem píanóleikari og stjórnandi m.a. Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar. Þá hefur hann stýrt tónlistarhátíðum og leikið með mörgum af bestu tónlistarmönnum landsins á geisladiska.
Tónleikarnir hefjast kl. 17.00 og opið verður í Veitingastofum Hannesarholts fyrir viðburðinn.