Víkingur leikur fyrir Hannesarholt
10/01/2018 @ 20:00
| kr.12000Einstakir styrktartónleikar þar sem Víkingur Heiðar Ólafsson leikur tónlist Bachs og umritanir annarra tónlistarmanna á verkum hans fyrir gesti Hannesarholts, en verkin verða hljóðrituð fyrir Deutsche Grammophon síðar í janúar. Philip Glass kemur einnig við sögu og Víkingur deilir sýn sinni á tónlistina með áheyrendum. Efnisskráin mun ekki heyrast annars staðar fyrr en á hljómplötunni og gefur samverustundin fágæta innsýn í vinnu tónlistarmannsins í aðdraganda upptöku.
Víkingur gefur Hannesarholti vinnu sína og vill með því stuðla að því að Hannesarholt lifi áfram. Sjálfseignastofnunin hefur starfað í tæp fimm ár með dyggum stuðningi stofnenda en til að Hannesarholt eigi framtíð þarf að koma til breiðari stuðningur frá samfélaginu.
Hljóðberg Hannesarholts er rómaður tónlistarsalur með ríkulegan og hlýjan en jafnframt skýran og nákvæman hljómburð. Salurinn býður upp á heillandi nánd milli flytjenda og áheyrenda og Steinway flygillinn sem Víkingur valdi fyrir Hljóðberg býr yfir óvenju mikilli dýnamískri breidd og voldugum en glitrandi tóni.
Um er að ræða einstakan viðburð og miðar aðeins seldir í forsölu. Miðaframboð afar takmarkað. Léttar veitingar í hléi.
Veitingastaðurinn á 1.hæð er opinn frá kl.18.00 fyrir þá er vilja kvöldverð á undan tónleikunum. Borðapantanir í síma 511-1904 og á vidburdir@hannesarholt.is